142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[16:36]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Umræðan um skuldavanda heimilanna hefur verið í sérkennilegu fari hér á þinginu undanfarna daga. Það hefur legið fyrir frá upphafi að hinar stóru aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í vegna skuldamála heimilanna verða ekki afgreiddar á sumarþingi. Á þessu stutta þingi yrðu afgreidd mál sem hægt væri að hrinda í framkvæmd með einföldum hætti. Stærri málin þyrftu meiri undirbúning, samráð við marga hagsmunaaðila og síðast en ekki síst vandaða umræðu hér í þinginu — takið eftir: vandaða umræðu.

Krafan um vandaða umræðu hefur ekki síst komið frá stjórnarandstöðunni sem lagt hefur áherslu á að mál verði ekki keyrð í gegn á stuttu sumarþingi. Samt sem áður hefur þessi sama stjórnarandstaða krafist þess að sjá endanleg frumvörp um skuldaleiðréttingu strax í dag og helst í gær.

Ný ríkisstjórn hefur setið í nokkrar vikur og af hverju eru frumvörpin ekki tilbúin? heyrist hér aftur og aftur. Stjórnarandstaðan sem hafði ekki dug í sér til að taka af alvöru á málefnum heimilanna þau ár sem hún hélt um stjórnartaumana kemur hér upp hvítþvegin eftir kosningar og heimtar efndir strax og ekkert skortir á frasana: Engar efndir, bara nefndir, er sá nýjasti. Það er síðan borið á borð fyrir landsmenn eins og hver önnur sannindi.

Finnst þingmönnum þetta virkilega boðlegt? Halda þingmenn virkilega að landsmenn sjái ekki í gegnum svona orðræðu? Heldur stjórnarandstaðan virkilega að þetta leiði til aukinna vinsælda? Halda menn virkilega að þetta sé málefnaleg umræða?

Það sem gert var fyrir heimilin á síðasta kjörtímabili kom frá Hæstarétti, ekki frá Alþingi. Öll kosningaloforð um skjaldborg heimilanna voru svikin. Hugtakið „norræn velferð“ fékk nýja merkingu í meðförum fyrrverandi stjórnarherra. Virðing landsmanna gagnvart löggjafarþinginu er nánast engin eftir langa eyðimerkurgöngu þingsins.

Hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem fyrirhugaðar aðgerðir varðandi skuldavanda heimilanna eru skilgreindar. Þetta er metnaðarfullt plagg í 10 liðum, plagg sem er í samræmi við kosningaloforð stjórnarflokkanna. Höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, kostir og gallar sérstaks leiðréttingarsjóðs, afnám verðtryggingar. Það eru nokkur atriði sem tekið er á í þessu plaggi.

Er ekki rétt að leyfa ríkisstjórninni að leggja fram frumvarp um þessi mál áður en farið er að gagnrýna? Gagnrýni á frumvörp sem eru ekki einu sinni komin fram telst seint málefnaleg og aldrei sanngjörn.