142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[17:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Það er virðingarvert að vilja mæta þeim brýna vanda sem blasir við mörgum heimilum í landinu, ekki skal ég draga úr því. Síðasta ríkisstjórn glímdi við það verkefni allt síðasta kjörtímabil og náði þar miklum árangri svo eftir var tekið víða um heim. Það var talið afrek hversu vel stjórnvöld hefðu tekist á við þessar erfiðu aðstæður, að mæta skuldugum heimilum og verja velferðarkerfið, sem skiptir nú ekki litlu máli fyrir heimilin í landinu, því að þegar kemur að buddunni telja nefnilega allir þættir. Fjölskyldurnar í landinu búa við mjög fjölbreytilegar aðstæður. Sumir hafa sitt eigið húsnæði, aðrir leigja, svo það er með ýmsum hætti hvernig sá kostnaður fellur til.

Nú kemur ríkisstjórnin fram með aðgerðaáætlun og vísar þeirri vinnu inn í sumarið og langt fram á haust. Ég er nú ansi hrædd um að margir hafi trúað því að eitthvað kæmi tilbúið strax að loknum kosningum vegna þessara loforða þeirra flokka sem voru með dýra kosningavíxla. Þeir lofuðu mörgu, bæði skattalækkunum, afnámi verðtryggingar og lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána. Það var trú margra að því yrði hrint í framkvæmd fljótlega að loknum kosningum miðað við tal manna fyrir kosningar.

Komið hefur fram í máli manna að síðasta ríkisstjórn hafi nú mest lítið gert í þeim málaflokki og hafi haft fjögur ár til þess að vinna að því úrlausnarefni eftir hrunið ásamt fjölmörgum öðrum þáttum sem menn stóðu frammi fyrir, jafnvel því að ríkissjóður yrðu settur af eða gjaldfærður niður, færi á hausinn og að við yrðum sett í Parísarklúbbinn. Það var allt í umræðunni í upphafi kjörtímabils hvað mundi verða um íslenskt þjóðarbú en sem betur fer tókst mönnum að vinna sig út úr þessum gífurlega vanda hægt og bítandi og verja erfiða stöðu margra heimila.

Þess vegna segi ég við þá flokka sem fengu umboð til þess að halda áfram að vinna að bættum hag heimilanna — ég segi: halda áfram að vinna að bættum hag heimilanna, því að ég held að það sé vilji allra þeirra þingmanna sem hér eru og sem kosnir hafa verið að vinna að bættum hag heimilanna. Ég get ekki ímyndað mér að neinn hér inni hafi neitt annað í huga en að vinna að bættum hag heimilanna. En þá eru það spurningar um leiðir og hvað er gerlegt. Þar fórum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ekki fram úr okkur því að við þekktum mætavel stöðu ríkissjóðs og það tel ég að allir flokkar sem áttu fulltrúa á Alþingi hefðu átt að gera og fara varlega í kosningaloforðum sínum.

En þar sem menn fóru geyst í kosningabaráttunni og lofuðu miklu og höfðu verið með miklar hugmyndir allt kjörtímabilið, finnst mér nú að menn hefðu átt að koma betur undirbúnir til leiks. Þeir höfðu líka þessi fjögur ár til að útfæra tillögur sínar, til að láta fara ofan í saumana á því hvað væri gerlegt og hvað ekki miðað við skuldastöðu ríkissjóðs og ekki byrja á því að leggja hér fram einhvern fermingarsáttmála um góðan vilja, sem segir í raun og veru ósköp lítið annað en það að fólk má búa við óvissu allt þetta ár um hvað verður. Mér finnst það ekki vera heiðarlegt gagnvart þeim kjósendum sem kusu þessa flokka. Þá hefðu menn átt að tala þannig í kosningabaráttunni að þeir, eins og þáverandi stjórnvöld, vildu halda áfram að vinna að þessum málum en hefðu enga töfrasprota til að kalla fram peninga sem ekki eru til. Þáverandi stjórnvöld vissu alveg að möguleiki væri fólginn í því að ná með einhverjum hætti fjármagni frá þeim vogunarsjóðum sem eru með fjármagn hér í gjaldeyrishöftum. Það vissu allir stjórnmálaflokkar að það var möguleiki í því fólginn. En menn vissu það jafn vel að ekkert væri í hendi varðandi hvenær það yrði og að menn yrðu bara að sýna þolinmæði og vinna úr því verkefni hægt og bítandi. Ef þar væru fjármunir sem hægt væri að nýta fyrir fólkið í landinu með einhverjum hætti þyrfti líka að ræða hvar sá stuðningur og hvar þeir fjármunir væru best nýttir. Það er auðvitað fjöldinn allur af góðum verkefnum sem væri hægt að setja fjármagn í. Þá yrðu menn að setjast niður við það erfiða verkefni eins og er hér á hverju ári varðandi fjárlögin við að deila út því fjármagni sem er til skiptanna og forgangsraða.

Mér hefur alltaf fundist að við ættum að byrja á því að aðstoða þá sem minnst mega sín og búa við erfiðar aðstæður. Þeir sem eru betur settir ráða frekar fram úr sínum málum. Ég vil forgangsraða í þágu þeirra sem verst eru settir, hvort sem er í málaflokki húsnæðismála, ellilífeyrisþega, öryrkja, barnafjölskyldna eða annarra hópa í landinu sem þurfa stuðning umfram aðra. Þannig vil ég að við sem þjóð styðjum hvert annað og forgangsröðum rétt í þessu þjóðfélagi.

Mér fannst það ekki vera rétt forgangsröðun í þessu samhengi þegar ríkisstjórnin byrjaði á því, án þess að hugsa sig um eða skipa nefnd eða starfshóp, að fella niður veiðigjöld fyrir háar fjárhæðir sem hefðu einmitt nýst þessum hópum sem ég vil forgangsraða til, að fella niður veiðigjöld af fyrirtækjum í landinu sem eru vel gjaldfær og vel megnug þess að standa undir því veiðigjaldi sem lagt var á, sem betur fer því að það er gott ef vel gengur, í sjávarútvegi sem annars staðar. Það er gott fyrir okkur öll.

Þess vegna segi ég: Við eigum að vera menn til þess að forgangsraða þeim fjármunum sem við höfum úr að spila með réttlátum hætti, ekki láta þá fara fremst sem hæst hafa heldur horfa til þess hverjir þurfa á aðstoð að halda.

Mér datt nú í hug eitt (Forseti hringir.) hér í lokin: „Þær eru margar nefndirnar en hvurnig er með efndirnar sem sumir lofuðu (Forseti hringir.) sumum?“