142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[17:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er ég að flytja mína seinni ræðu um þingsályktunartillögu sem gefur hverjum þingmanni tækifæri á að ræða málið í 15 mínútur. Málið fer síðan í nefnd og þá í afgreiðslu í þinginu. Við erum að tala um eitt stærsta mál nýrrar ríkisstjórnar, 10 liði, að vísu koma þeir síðan væntanlega aftur til umræðu einhvern tímann á næsta ári. En það sem skiptir auðvitað mjög miklu máli á þessu stigi er hvað fer inn í vinnuna. Það er það sem ég hef verið að kalla eftir.

Ég hef líka áhyggjur af því þegar ég heyri að ungir þingmenn hafa jafnvel étið það upp eftir formönnum sínum að ekkert hafi verið gert á síðasta ári. Ég velti því fyrir mér þegar við tökum t.d. röð af skýrslum, vinnu og öðru, hvort menn hafi virkilega ekkert kynnt það, hvort menn hafi ekkert lagt það fram, hvort menn hafi ekki fengið tækifæri til að skoða þetta á netinu bara eins og þegar við höfum verið að reyna að greina hver vandinn er.

Við höfum t.d. komist að því að einn sá hópur sem er í hvað mestum vanda í þessu samfélagi eru leigjendur. Það eru þeir sem eiga ekkert í húsnæði sínu. Hvar verður leiðréttingin fyrir þá þegar við ræðum um hag heimilanna? Við ræðum þá sem setið hafa fastir, sem úrræðin okkar dugðu ekki á, sem var lánsveðshópurinn eins og nefnt var af ræðumanninum hér á undan, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Við ræddum líka ábyrgðarmennina þar sem menn lánuðu eða lögðu ábyrgð inn hjá fólki og menn sitja fastir. Það er jafnvel verið að ganga að fullorðnu fólki og taka af því húsnæðið vegna þess hvernig lánafyrirkomulagið var. Þeir hópar hafa ekki möguleika í þessum tillögum eins og þær liggja fyrir hér. Eru þeir alveg utanveltu?

Ég get haldið áfram. Þeir sem seldu eignir skömmu fyrir hrun, eins og var í tísku, losuðu eignirnar sínar, fóru inn í búmannafélög, fóru inn hjá öldrunarstofnunum eins og Eir og öðru slíku og skuldbundu sig þar, eiga engan rétt. Eru þeir utan við þetta? Það eru engar leiðréttingar fyrir þann hóp. Þeir sem keyptu eignirnar fá væntanlega þá leiðréttingu. Það er fullt af slíkum spurningum.

Hvernig ætlum við að leiðrétta það? Ég sagði það á sínum tíma, af því nú erum við að tala um forsendubrest sem er alveg hárrétt að varð hér, hér kom 20% skellur: Hvað með þá sem búa úti á landi og hafa fengið slíka skelli? Hér er fullt af þingmönnum af þeim svæðum. Og ef farið er yfir á Vestfirðina þar sem búast má við því að miðað við nýbyggingarkostnað geti menn selt eignirnar á 20–30% af virði húsanna. Þeim hefur aldrei verið hjálpað. Meira að segja bara í kraganum í kringum Reykjavík, strax úti á Reykjanesi, Grindavík, Akranesi, Selfossi vitum við að þegar við kaupum hús, þ.e. látum byggja yfir okkur, þá seljum við húsið með 20% afföllum á næsta ári. Það er eins og bíll. Við vitum af því. Er það forsendubrestur?

Á sama tíma gerðist það í Reykjavík á árunum 2004–2007 að húsnæði hækkaði um 50% á þremur árum. Síðan lækkaði það aftur en það fór aldrei niður í það sem áður var. Er það forsendubrestur? Mér finnst að menn þurfi að ræða svona hreinskilnislega vegna þess að við erum að reyna að ná utan um þetta mál. Við erum öll sammála um að við verðum að gera það. Við verðum að ná utan um málið til að reyna að komast út úr þessum vanda og ná sátt hjá þjóðinni ef við ætlum að komast eitthvað áfram.

Hvað með þá sem eru námsmenn og safna skuldum? Hvað með þá úttekt sem unnin var í tengslum við 110%-leiðina hjá Íbúðalánasjóði þar sem kom í ljós að þeir sem verst voru settir hjá Íbúðalánasjóði voru með meiri greiðslubyrði vegna annarra lána en húsnæðislána? Þeir voru með að meðaltali 90 þús. kr. í afborganir af íbúðarhúsnæði, nú er ég að tala um ársgamlar tölur, en þeir voru með allt upp í 80–90 þús. kr. í afborganir af öðrum lánum. Þessum aðilum verður ekki hjálpað með einhverjum flötum niðurfærslum. Það verður að gera eitthvað annað ef þeir eiga ekki að tapa húsinu sínu.

Margir höfðu fært skuldbindingar yfir á húsin þegar þessi hækkun varð. Þá notuðu menn veðandlagið til þess að auka skuldir. Á að breyta eitthvað út frá því o.s.frv.? Það er fullt af svona spurningum sem hefði verið gaman að ræða og vinna þannig að það kæmi inn í vinnuna. Menn svöruðu því hér með okkur, ekki endilega í þingsal, en þá inni í nefndum, því að hér eru t.d. húsnæðismálin sem fara inn í velferðarnefnd: Við eigum enga aðkomu að þessu aftur. Valið var að setja málið í þannig farveg að það er eiginlega ekki nokkur leið að taka málið til ítarlegrar umræðu.

Það finnst mér miður, einkum vegna þess að þarna er um að ræða stærsta málið og líka vegna þess að á sama tíma og menn ætla að fara út í þessar breytingar kvarta þeir yfir því að þurfa að draga til baka eitthvað sem við lofuðum til að bæta hag heimilanna vegna þess að þeir eru búnir að ákveða að taka tekjurnar út úr ríkissjóði með því að lækka veiðileyfagjald og lækka álögur, (Forseti hringir.) og þar með væntanlega hverfa frá gjaldfrjálsum tannlækningum, lagfæringum á fæðingarorlofi, hækkun á barnabótum (Forseti hringir.) og fleiru sem er fyrir heimilin (Forseti hringir.) þó að það sé ekki í formi húss.