142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

hallalaus fjárlög.

[10:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er gamalkunnugt að ríkisstjórn reyni að dekkja myndina þegar hún tekur við til að skapa sjálfri sér skjól og svigrúm. Það er enn skiljanlegra þegar í hlut á ríkisstjórn sem hefur gefið móður allra kosningaloforða hvað varðar áhrif á ríkissjóð, annars vegar í miklum skuldaniðurfellingum og hins vegar miklum skattalækkunum. Engu að síður koma frá ráðuneytinu sjálfu, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra stýrir, upplýsingar um að greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi er nánast algerlega á áætlun. Tekjuhliðin hefur jafnað sig aftur eftir daufa vetrarmánuði og útgjöldin eru innan áætlunar. Ef við eigum að trúa því sem kemur frá ráðuneytinu og Hagstofunni þá er þetta svona: „Í grófum dráttum teljast tekjur ársins því á áætlun …“ segir í plaggi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Það mun samt engu breyta þótt eitthvað þyngra sé fyrir fæti, og við þekkjum auðvitað öll spár um minni hagvöxt, að viðskilnaðurinn nú er af stærðargráðunni 10–20 sinnum betri en fyrri ríkisstjórn stóð frammi fyrir á sínum tíma. Við erum að tala um stærðargráðumun (Forseti hringir.) í þeim efnum þannig að ég legg til að hæstv. ríkisstjórn finni sér eitthvað annað að tuða yfir en það (Forseti hringir.) að hún sé sérstaklega óheppin hvað varðar viðskilnað í ríkisfjármálum.