142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna eins og aðrir þessari umræðu, sérstaklega því að rætt sé af yfirvegun samspil náttúruverndar og náttúrunýtingar. Því miður hefur umræðan ekki alltaf verið yfirveguð eða róleg og ummæli eins og: verkin sýna merkin, þegar Alþingi hefur aðeins starfað í eina viku benda einfaldlega til þess að stjórnarandstaðan ætlar ekki að vera neitt sérstaklega sanngjörn, alla vega ekki allir, vil ég meina.

Óskað var eftir því að haldinn yrði sameiginlegur fundur í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd um daginn. Að sjálfsögðu urðum við við því. Af hverju? Jú, vegna þess að við viljum fá allar upplýsingar og öll sjónarmið um Hellisheiðarvirkjun upp á borðið og sjá hver staðan er í raun og veru. Ég lagði það til við hv. formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við mundum bjóða fjölmiðlum að vera viðstaddir fundinn. Af hverju? Jú, vegna þess að ég tel að öll störf okkar þingmanna eigi að vera opin, eigi að vera uppi á borðinu og að fjölmiðlar eigi að hafa þar greiðan aðgang að.

En þegar verið er að ræða atvinnustefnuna vil ég taka eitt fram. Á síðasta kjörtímabili setti þáverandi ríkisstjórn sér markmið. Hún ætlaði að ná fram einhverjum tilteknum verðbólgumarkmiðum sem hún náði alls ekki og hún ætlaði að auka hagvöxt um 4,4% á árinu 2012 sem hún náði alls ekki. Inni í þeim hagvaxtarspám var hvað? Jú, álver í Helguvík. Var það ekki ríkisstjórnin sem setti af stað framkvæmdir við Bakka á Húsavík? Þar var það gert á skynsamlegan máta með samspil náttúruverndar og náttúrunýtingar í huga. (Forseti hringir.) Núverandi ríkisstjórn ætlar sér ekki neitt annað en að vinna vel og faglega í þessum efnum og vonast ég til þess að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hjálpi okkur við að vernda náttúruna og að ná upp öflugu atvinnulífi (Forseti hringir.) til þess að örva hagvöxtinn í landinu.