142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hingað upp með sínar hefðbundnu ræður og spyr af hverju þessu sé hraðað hér í gegnum þingið. Ég fór ítarlega í gegnum það í ræðu minni að ástæðan fyrir því að þetta mál er hér til umræðu — og hefði alltaf verið til umræðu, sama hvaða ríkisstjórn væri við völd — er sú að bregðast þarf við því að lögin, sem sett voru hér sumarið 2012, komast ekki til framkvæmda, þau eru óframkvæmanleg. Ef við hefðum ekki brugðist við á þessu sumarþingi hefðu engin sérstök veiðigjöld verið lögð á frá 1. september 2013.

Hér er lagt fram frumvarp þar sem tekið er tillit til skynsamlegri efnahagsstefnu til að byggja upp atvinnu. Ég veit að hv. þingmaður hefur verið hér í fjögur ár að reyna að koma ýmsu í gang og gert margt vel. En hins vegar hefur alltaf skort á ákveðinn skilning. Þegar um grundvallaratvinnuvegina er að ræða hefur hv. þingmaður ekki skilning á þeim þörfum sem þar eru.

Hann segir að hér drjúpi smjör af öllum stráum. Fyrirtæki hafa farið á hausinn. Fyrirtæki hafa þurft að segja upp fólki. Fyrirtæki hafa gengið kaupum og sölum vegna þess að þau sjá ekki þann möguleika fyrir sér að starfa í því rekstrarumhverfi sem hv. þm. Helgi Hjörvar, Samfylkingin og Vinstri græn, hafa komið á í þessari grein á síðustu fjórum árum.

Við sögðumst ætla að breyta því og við erum komin hingað til þess og það munum við gera. Við leggjum á til eins árs, á meðan við gefum okkur tíma til að fara vel yfir það hvernig við ætlum að leggja veiðigjöld á til framtíðar — á grundvelli stefnu ríkisstjórnarflokkanna, á grundvelli stjórnarsáttmálans, leggjum við á þetta gjald sem er að mínu mati skynsamlegt, ýtir undir nýsköpun og fjárfestingar í greininni og gengur ekki að einstaka fyrirtækjum dauðum eins og stefnt hefði í með þessa atvinnugrein ef hv. þingmaður og sú ríkisstjórn sem hann átti aðild að hefðu fengið sínu framgengt.