142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að hv. þingmaður staðfestir að það þurfti að bregðast við og það reyndist ekki gerlegt í þeim vanda sem hv. þingmaður minntist á.

Hv. þingmaður talar um að ekki væri komið til móts við minni fyrirtækin. Við höfum reynt á þessum stutta tíma að leggja mat á einstök fyrirtæki. Eitt lítið fyrirtæki sem ellegar hefði þurft að greiða yfir 5 milljónir í sérstakt veiðigjald lækkar hér niður í 3 milljónir. Það er því ekki hægt að halda öðru fram en að virkilega sé verið að koma til móts við minni fyrirtækin.

Varðandi þann samanburð sem hv. þingmaður er með við núverandi krónutölu í uppsjávar- og botnfiski væri kannski áhugavert fyrir okkur að hv. þingmaður upplýsti með hvaða hætti sú tala var fengin, að í uppsjávargreinunum væri sama vægi álagningar, annars vegar 23,20 og hins vegar 27,50 á yfirstandandi ári, þegar menn setjast yfir reikningana og það kemur út allt önnur tala þegar þeir eru að (Forseti hringir.) reyna að hafa vægið jafnt. Það væri mjög áhugavert að fá að heyra þá útreikninga frá hv. þingmanni.