142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

ríkisfjármál.

[13:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra má ekki verða svona önugur þó að hann sé spurður út í þá stefnu sem ríkisstjórnin fylgir í ríkisfjármálum, því að hún er ekki einkamál ríkisstjórnarinnar. Við eigum öll mikið undir því að það sé skýr stefna í ríkisfjármálum. Nú síðast í síðustu viku sagði peningastefnunefnd Seðlabankans að hún kæmist ekki í að lækka vexti vegna þess að hún vissi ekki hvert hæstv. fjármálaráðherra væri að fara með jöfnuð í ríkisfjármálum. Þess vegna er eðlilegt að við öll spyrjum.

Síðasta ríkisstjórn var alltaf með fyrirmælin til fagráðuneytanna opinber á vormánuðum — í maí var alltaf vitað eftir hverju verið var að vinna og það voru opinberar upplýsingar. Því er eðlilegt að ég spyrji: Hvaða fyrirmæli er búið að gefa í ráðuneytunum? Ég ítreka þá spurningu. Almenn fyrirmæli um að gæta ýtrasta aðhalds? Ja, ég kaupi nú ekki að það sé það sem raunverulega hafi verið sagt við ráðherrana ef hæstv. fjármálaráðherra meinar eitthvað með því að gera alvöruatrennu að jöfnuði í ríkisfjármálum.

Er það rétt að búið sé að leggja til við velferðarráðuneytið að draga þar saman um 3,5 milljarða? Það er talan sem flýgur fyrir. Er það þannig? (Forseti hringir.) Eru það 3,5 milljarðar í velferðarráðuneytinu?