142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki almennt deilt um það hvort greiða eigi veiðigjöld sérstaklega, en þau lög sem eru gildandi um þessi mál í dag gera að verkum að þau verður að endurskoða eigi að innheimta veiðigjald á næsta fiskveiðiári. Það er nákvæmlega það sem meirihlutaflokkarnir á þingi eru að gera núna. Í þessari nálgun þeirra flokka er verið að reyna að mæta þeim augljósu göllum sem eru á núgildandi lögum og núgildandi skattlagningu þar sem litlar og meðalstórar útgerðir í landinu, bolfisksútgerðir, eiga mjög undir högg að sækja á meðan uppsjávarútgerðirnar bera þetta gjald miklu betur. (Gripið fram í.)

Nálgunin er nákvæmlega sú, virðulegi forseti, að það er verið að lækka gjöldin á þá sem hafa farið verst út úr þessu en hækka þau á móti á stórútgerðirnar sem eru í uppsjávarveiðum, enda kom það fram hjá gestum sem komu fyrir atvinnuveganefnd í morgun. Þar kom meðal annars fram heilmikil gagnrýni frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna en frá Landssambandi smábátaeigenda kom ekki fram svo mikil gagnrýni á þetta mál. Þeir fögnuðu þeim breytingum sem er verið að boða, svo að því sé nú haldið til haga.

Hér hafa menn verið sakaðir um að málsmeðferðin sé ómálefnaleg. Ég segi að sú umræða sé ómálefnaleg. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir óskaði eftir því í gær við mig að fundirnir yrðu opnir. Ég bendi bara þingmönnum á að kynna sér þær reglur sem gilda á Alþingi um opna fundi nefnda. Þetta er ekki hin almenna regla. Það þarf þá að breyta þeim reglum ef við eigum að fara að hafa fundi almennt opna og þeim verður þá að stýra með þeim hætti sem kveðið er á um. Það breytir auðvitað öllu fundarformi hinna almennu nefndarfunda. Að vera að bera mönnum það hér á brýn að opna þurfi fundi til að það komi í ljós að þingmenn hafi ekkert að fela — ég hafna svona málflutningi. (Gripið fram í.) Ég held að við ættum að hætta þessu, hv. þingmenn, hætta slíkum málflutningi. Við ættum að stunda hér einhvern málefnalegan málflutning. Margt í þessu máli er (Forseti hringir.) mjög ómálefnalegt og menn sýna það svo sannarlega að þeir ætla ekki að breyta neinu í vinnubrögðum sínum á nýju þingi.