142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

málefni ferðaþjónustu.

[11:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni undanfarið gleðjumst við öll yfir góðum árangri í ferðaþjónustunni.

Því miður verður ekki betur séð en að við séum langt á eftir þörfinni fyrir aðstöðu og innviði sem kallar á aukna fjárfestingu innan greinarinnar sjálfrar. Í fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013–2015 er áætlað að 2.250 milljónum verði varið til fjárfestingar í ferðaþjónustunni, 1.500 milljónum til uppbyggingar ferðamannastaða og 750 milljónum til innviða.

Fyrir þessu þingi liggur tillaga um að draga til baka hækkanir sem samþykktar voru á virðisaukaskatti á gistiþjónustu. Ég tel það hafa verið óskynsamlega og tilefnislausa tillögu. Við höfum enga þörf fyrir atvinnugrein sem getur ekki lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Við ættum þá að velta fyrir okkur hvort við eigum ekki að fara í einhverjar aðrar greinar ef þær atvinnugreinar sem vaxa hraðast geta ekki staðið undir samfélaginu með okkur hinum.

Eftir að þessi tillaga var lögð fram hófst umræða um gjaldtöku á ferðamannastöðum. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra að eftirfarandi: Hvaða upphæðir eru í huga þeirra sem vinna að þessu? Ég veit að málið er stutt komið en fólk hlýtur að hafa einhverjar hugmyndir um hvaða upphæðir er verið að vinna með. Hvað á þá að innheimta mikið á hverju ári?

Ég velti því líka fyrir mér hvort menn hafi velt því fyrir sér að kannski er nú þegar tekið gjald. Eða heldur fólk að þegar lagt er í „gullhringinn“ þá sé það bara óvissuferð í rútu? Það er náttúrlega búið að selja því fólki aðgang að þeim dýrmætu náttúruperlum okkar. Ég velti fyrir mér hvort menn hugi að þessu í (Forseti hringir.) vangaveltum sínum um gjaldtöku á ferðamenn.