142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

orkuverð til álvers í Helguvík.

[15:06]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að samþykkja það hér að sú sem hér stendur hafi verið í einhverjum umkenningaleik. Í gegnum tíðina höfum við, ég og hv. þingmaður, margoft rætt það ágæta verkefni sem álver í Helguvík er. Ef hv. þingmaður hefði lesið einni setningu lengra úr tilvitnuninni í viðtalið — ef mig misminnir ekki þá las hann ekki setninguna: „En menn eru enn í viðræðum.“ Það er því ekki þannig að með þessu viðtali hafi forstjóri HS Orku verið að slá þetta verkefni út af borðinu en að sjálfsögðu þurfa þeir að ná saman og það hefur alltaf verið staðreynd málsins.

Ég fer hins vegar ekkert ofan af því að á umliðnum árum, á síðasta kjörtímabili, voru ýmsir steinar lagðir í götu þessa verkefnis og því getur hv. þingmaður ekki borið á móti. Ég hef líka sagt að á endanum verði ákvörðun um það hvort þetta verkefni fari af stað tekin annars staðar en í Stjórnarráði Íslands. Það gera sannarlega þau fyrirtæki sem hér um ræðir og ég vil líka ítreka það sem oft hefur komið fram hjá forstjóra Norðuráls að skuldbinding þeirra gagnvart þessu verkefni stendur óhögguð.

Ég get líka endurtekið það hér og ítrekað að ég mun sjá til þess að ekkert mun stranda á mínu borði sem snýr að þessu verkefni. Ef það er eitthvað á grunni þess fordæmis sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon veitti, með ívilnandi samningum gagnvart framkvæmdum við kísilver á Bakka, sem gæti komið þessu verkefni til góða og komið því af stað mun ég svo sannarlega byggja á því; ég mun byggja á því fordæmi sem hv. þingmaður gaf með frumvarpi og samþykkt laga um fjárfestingar á Bakka.