142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Síst vil ég nokkurn heiður né virðingu af hv. þingmanni taka.

Varðandi kosningaloforð Framsóknarflokksins er hugsanlegt að ég sé betur að mér í þeim en hv. þingmaður. Ég get til að mynda upplýst hann um það, af því að hann talaði um móður allra kosningaloforða, að það átti ekki að kosta neitt. Það var mörgum sinnum í gadda slegið að það átti ekki að kosta ríkissjóð neitt. Ég get kannski viðurkennt að það ruglaði mig pínulítið í ríminu um tíma, þess vegna hlakkaði ég til sumarþingsins. Mig langaði að sjá hvernig menn fara að því að smella fingri og búa til 300 milljarða. Ég segi ekki úr loftinu, reyndar með þeim vopnum sem ég og hv. þingmaður áttum þátt í ásamt fyrri ríkisstjórn að smíða. Ég ætla ekki að fara frekar út í það. Þannig er nú um málið búið. Það átti ekkert að kosta. Hv. þingmaður getur þess vegna leyft sér að hafa áfram áhyggjur af hinum smærri málum eins og því sem hér er undir í umræðunni.

Ég tel hins vegar þegar allt er skoðað þá sé nú heldur óhönduglega af stað farið ef við verðum allt í einu í þeirri stöðu núna að mál sem ég held að allir þingmenn styðji í hjarta sínu, sem er uppfylling þeirra yfirlýsinga sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra gaf um bætt kjör aldraðra og öryrkja, ef þarf að stoppa það út af því máli sem við erum að ræða núna. Ég held að við munum alla tíð vera sammála um það.