142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:11]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hefja ræðu mína á tilvitnun sem hefst raunar á tilvitnun í hagfræðinginn Amartya Sen, og hljóðar svo:

„Það frelsi sem máli skiptir felur í sér frelsi til að breyta sem borgarar sem láta að sér kveða og tekið er mark á, fremur en að lifa sem stríðalin, velklædd neysluþý sem vilja láta skemmta sér án afláts.“

Tilvitnun heldur áfram, með leyfi forseta:

„Ein meginforsenda þess að borgararnir eigi þess kost að rækta þetta frelsi er að þeir hafi greiðan aðgang að góðum upplýsingum um samfélagið og vettvang til þess að skiptast á skoðunum um þær. Í þessu tilliti skipta vandaðir fjölmiðlar sköpum því að þeir eru í senn helsta upplýsingaveitan fyrir almenning og vettvangur borgaranna til að tjá sig um þjóðfélagsmál.

Oft er talað um fjölmiðla sem fjórða valdið, eða fjórðu grein valdsins í lýðræðisríki. Það felur í senn í sér aðhaldshlutverk, upplýsingahlutverk og umræðuhlutverk. Aðhaldshlutverkið þýðir að fjölmiðlar leitist við að vernda borgarana fyrir misbeitingu valds, svo sem með því að veita stjórnvöldum og fjármálalífinu aðhald. Upplýsingahlutverkið felur í sér að fjölmiðlar láti borgurunum í té áreiðanlegar upplýsingar og vandaða greiningu á samfélagsmálum. Öflugir sjálfstæðir fjölmiðlar skapa þannig forsendur fyrir upplýsta almenna umræðu sem er grundvallaratriði í lýðræðisríki. Meginkrafan sem gera verður til fjölmiðla varðar faglega framsetningu frétta, hlutlægni þeirra og sanngirni.“

Svona lýkur þessari löngu tilvitnun sem ég sæki í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, 8. bindi, 1. viðauka, II. kafla, þar sem fjallað er um þátt íslenskra fjölmiðla fyrir hrun. Það er fullkomlega við hæfi að rýna í og rifja upp hvað er sagt um hlutverk fjölmiðla í merkustu skýrslu íslensks samfélags síðari tíma — þó svo að fulltrúi núverandi ráðherra mennta- og menningarmála sem formaður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi nýlega nefnt hana „stemningsskýrslu“ — þegar við erum í 2. umr. um frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, sem kveður á um val stjórnarmanna. Af hverju? Jú, því að frumvarpið er svo sorglega skýrt afturhvarf til fortíðar þegar kemur að umgengni stjórnmálamanna og viðhorfum þeirra til fjölmiðla landsins og hlutverk þeirra.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti sem var lagt fram 20. júní síðastliðinn af minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar kemur meðal annars fram að aðeins eru réttir þrír mánuðir, eins og áður hefur komið fram í umræðunni, frá því að Alþingi samþykkti ný heildarlög um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013. Með þeim voru gerðar margþættar breytingar á þeim lagareglum sem giltu um Ríkisútvarpið og lögð megináhersla á hlutverk þess sem fjölmiðils í almannaþágu.

Eins og öllum er kunnugt um sem hafa kynnt sér lögin var þeim ætlað að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni. Vísað er í ákveðin siðferðisgildi sem Ríkisútvarpið skuli hafa í heiðri, svo sem fagmennsku, heiðarleika og virðingu. Í þeim er ítarlegar kveðið á um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins en í eldri lögum. Meðal annars er þar sérstaklega tilgreint að það hafi bæði lýðræðishlutverk og menningarlegt hlutverk og það sem skiptir mestu máli hér í umræðu um frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, sem kveður á um val stjórnarmanna, er að með þessum heildarlögum voru gerðar breytingar á skipun og hlutverki stjórnar Ríkisútvarpsins.

Þannig er í núgildandi lögum kveðið á um að ráðherra tilnefni formann stjórnar og Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins einn stjórnarmann. Aðrir eru tilnefndir af valnefnd. Í þá fimm manna valnefnd sem er skipuð af ráðherra tilnefnir allsherjar- og menntamálanefnd þrjá fulltrúa, Bandalag íslenskra listamanna einn og samstarfsnefnd háskólastigsins einn. Eins og kunnugt er er lagt til með fyrirliggjandi frumvarpi hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra að þetta ferli við skipun valnefndar og stjórnar komist ekki til framkvæmda. Þess í stað skipi Alþingi sjö nefndarmenn.

Allsherjar- og menntamálanefnd bárust sjö umsagnir um frumvarpið og er engin þeirra jákvæð ef frá er skilin umsögn útvarpsstjóra sem ekki hefur neinar athugasemdir við skipan mála í nýja frumvarpinu, sem ég tel reyndar umhugsunarvert, sér í lagi þegar um er að ræða minni aðkomu starfsmanna að ákvarðanatöku stofnunarinnar og í ljósi þess að í núgildandi lögum er meiri áhersla en áður lögð á lýðræðislega starfshætti innan Ríkisútvarpsins.

Ég tek undir með minni hluta nefndarinnar sem átelur undarlega forgangsröðun að leggja til breytingu á nýju lögunum sem samþykkt voru fyrir aðeins um þremur mánuðum með miklum meiri hluta greiddra atkvæða. Við atkvæðagreiðslu um frumvarpið greiddu 35 atkvæði með samþykkt þess og einungis fjórir voru á móti.

Á liðnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á að hverfa frá flokkspólitískum stjórnum ríkisstofnana. Þannig hefur aukin áhersla verið lögð á hæfi, þekkingu og reynslu við skipun stjórnarmanna. Þessi sjónarmið eiga enn frekar við um Ríkisútvarpið í ljósi hlutverks þess sem er að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, þ.e. vera almannaþjónustumiðill. Þetta hlutverk er áréttað í heiti laganna með orðunum „fjölmiðill í almannaþágu“. Í núgildandi lögum er lögð áhersla á að Ríkisútvarpið skuli stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi. Getum við ekki bara öll verið sammála um þau gildi? Ég tel svo vera, en til að Ríkisútvarpið okkar allra geti ræktað hlutverk sitt er sérstaklega mikilvægt að gæta faglegs og pólitísks sjálfstæðis stofnunarinnar í daglegum rekstri og í dagskrárgerð.

Frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra nú stefnir í hættu áformum um eflingu hins lýðræðislega, menningarlega og samfélagslega hlutverks Ríkisútvarpsins. Ákvæði gildandi laga um skipun valnefnda var ætlað að tryggja að í stjórn Ríkisútvarpsins veldust einstaklingar með nauðsynlega þekkingu á þeim málefnum sem samkvæmt ákvæði laganna og markmiði þeirra eru helstu verkefni Ríkisútvarpsins. Með því að hverfa frá ákvæði núgildandi laga um valnefnd er horfið frá eftirsóknarverðri aðferð við val stjórnarmanna sem byggist á valddreifingu í þágu almannahagsmuna. Fyrirhuguð breyting ráðherra á skipun stjórnar Ríkisútvarpsins má teljast enn alvarlegri þegar horft er til þess að í lögunum er hlutverk stjórnar talsvert víðfeðmara en samkvæmt eldri lögum.

Stjórnin kemur þannig ekki eingöngu að rekstri stofnunarinnar eins og áður heldur hefur hún meiri umsvif og völd. Með núgildandi lögum voru möguleikar stjórnar Ríkisútvarpsins til að hafa áhrif á dagskrárlega þætti, innihald og efnislega umfjöllun stofnunarinnar auknir enda gert ráð fyrir breyttri skipan stjórnar þar sem fagleg sjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi.

En hvað gerist nú? Jú, það á að auka á ný vægi pólitískra þátta við skipun stjórnar og færa hana aftur í þann pólitíska farveg sem víkja átti frá.

Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að núgildandi lögum er bent á mikilvægi þess að ríkisrekin fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu veiti almenningi tryggingu fyrir hlutlægri umfjöllun með áherslu á gæði og áreiðanleika upplýsinga. Sú breytta skipun stjórnar sem lögð er til nú í fyrirliggjandi frumvarpi gefur almenningi tilefni til að efast um hlutlægni Ríkisútvarpsins og getur þannig dregið úr trausti á því að upplýsingar fjölmiðilsins séu áreiðanlegar og umfjöllun hans hlutlæg.

Þá ætla ég að tæpa aðeins á hæfi stjórnarmanna. Samkvæmt gildandi ákvæði laganna skal valnefndin við tilnefningu stjórnarmanna hafa hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og að meðal stjórnarmanna sé m.a. þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja. Þá skal valnefndin gæta að jafnrétti kynjanna í tilnefningum sínum. Þetta ákvæði er fellt brott í fyrirliggjandi frumvarpi og því engin trygging fyrir því að til stjórnarsetu veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varða rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins sem og meginmarkmiðum og verkefnum þess. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir þekkingu, faglegum sjónarmiðum eða jafnrétti kynjanna. Fyrirliggjandi frumvarp tryggir ekki faglegt hæfi stjórnarmanna, að þeir hafi þekkingu á menningu eða fjölmiðlun sem nauðsynlegt er til að markmið laganna nái fram að ganga.

Þá er vert að minna á þá þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar. Hún hefur verið í átt að meira lýðræði og gagnsæi við stjórn ríkisfjölmiðla auk þess sem fagleg sjónarmið eru þar látin ráða för. Ætlum við að standa nágrannalöndum okkar að baki í þeirri þróun og stuðla að afturhvarfi frekar en framgangi og framþróun?

Það er einnig ámælisvert að við gerð frumvarps hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra var ekkert samráð haft við hagsmunaaðila eða hlutaðeigandi aðila né heldur þá sem tilnefna áttu í stjórn félagsins eða valnefndina. Frumvarp það sem varð að núgildandi lögum var aftur á móti, eins og áður var tæpt hér á í ræðustól, samið á grundvelli víðtæks samráðs, en vinna við það hófst árið 2009.

Samráðsleysi líkt og við gerð þess frumvarps sem við ræðum nú er ámælisvert þegar kemur að stjórn ríkisfjölmiðils þegar verið er að leggja til breytingar sem ganga þvert á niðurstöðu ítarlegrar og þverpólitískrar vinnu þar sem hlustað var eftir fjölda sjónarmiða. Það er einnig umhugsunarvert að allar umsagnir nema ein frá útvarpsstjóra við frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem bárust allsherjar- og menntamálanefnd voru gagnrýnar á frumvarpið um breytingar á skipan stjórnarmanna RÚV. Allar. Þar má helst nefna, með leyfi forseta, að stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins harmar að fulltrúi starfsmannasamtakanna verði ekki í stjórn Ríkisútvarpsins samkvæmt tillögu um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Í umsögn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Með setningu laga nr. 23/2013, um stjórn Ríkisútvarpsins og skipan hennar, var það talið til bóta að fulltrúi starfsmanna fengi sæti í stjórn, til að fylgjast með og hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta starfsmenn fyrirtækisins.

Með þeirri tillögu sem nú liggur fyrir er ljóst að þessum endurbótum verður snúið við. Það harmar stjórn Starfsmannasamtakanna og bendir enn fremur á að nú þegar er búið að kjósa fulltrúa starfsmanna í stjórn Ríkisútvarpsins, samkvæmt gildandi lögum.“

Þar með er slegið á fingurna á starfsmönnum og þeirri hugsun ýtt út af borðinu að sjónarmið þeirra eigi heima við faglega ákvarðanatöku og stefnu fjölmiðilsins en í gildandi lögum er kveðið á um að starfsmenn Ríkisútvarpsins tilnefni einn stjórnarmann stofnunarinnar. Með frumvarpi núverandi mennta- og menningarmálaráðherra er þetta ákvæði fellt á brott. Það er líka vert á að minna að víða á Norðurlöndunum sitja fulltrúar starfsmanna í stjórnum ríkisútvarpsstöðvanna.

Í annarri ályktun, frá stjórn Bandalags íslenskra listamanna, er fyrirliggjandi frumvarp gagnrýnt og bent á að með því, með leyfi forseta, „yrði horfið frá þeirri mikilvægu breytingu að skapa fjarlægð við hið pólitíska vald á Alþingi. Þess í stað yrðu pólitísk tengsl stjórnarmanna fest í sessi með afgerandi hætti þar sem þeim væri ætlað að endurspegla valdahlutföllin á Alþingi. Slíkt væri mikil öfugþróun og í hróplegu ósamræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.“

Ég spyr: Er þetta það sem við viljum í framtíðarskipan og mótun ríkisfjölmiðils okkar? Að herða pólitísk tök á Ríkisútvarpinu og hverfa frá þeirri sýn að breið skírskotun stjórnarmanna og þekking og reynsla af fjölmiðlun og menningarmálum sé best til þess fallin að tryggja farsæla stjórn þessa fjölmiðils okkar allra sem starfa á í almannaþágu.

Að lokum, af því að ég hóf ræðu mína á tilvitnun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, er borðleggjandi að rifja upp hvað stendur um hlut fjölmiðla í skýrslunni, í því bráðnauðsynlega tæki til að draga lærdóm af efnahagshruninu og aðdraganda þess til að sporna við þeim samfélagslegu veikleikum sem opinberuðust við hrunið. Lærdómarnir sem rannsóknarnefndin leggur til er varðar fjölmiðla eru meðal annars eftirfarandi og má finna í 8. bindi, viðauka 3, með leyfi forseta.

„Leita verður leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar.“

Ég legg áherslu á þessi orð, að leita leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði fjölmiðlunar. Það er einnig dregið fram að styrkja þurfi sjálfstæði ritstjórna. Þessu tel ég vera ógnað með frumvarpi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um pólitíska skipun stjórnarmanna ríkisfjölmiðilsins.

Af því að ég er í upprifjunarstuði er líka ágætt að rifja upp viðbrögð Alþingis við rannsóknarskýrslunni, sem ég hef nefnt nokkrum sinnum hér, ef svo ólíklega vill til að einhver hér inni sé búinn að gleyma þeim. Viðbrögð Alþingis voru nefnilega jákvæð og góð enda má lesa þau skýrt í þingsályktun þingmannanefndar um viðbrögð Alþingis við rannsóknarskýrslunni sem samþykkt var í lok september 2010. Enn til upprifjunar þá sátu í þeirri þingmannanefnd meðal annarra tveir núverandi ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem styður nú frumvarp hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það voru þau hæstv. velferðarráðherra Eygló Harðardóttir og hæstv. ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar, Sigurður Ingi Jóhannsson.

Í þeirri þingsályktun voru eftirfarandi atriði samþykkt, eftir að hún var lögð fyrir Alþingi, af öllum þingmönnum, þar á meðal öllum þingflokki Sjálfstæðisflokksins, samflokksmanna hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem nú gengur síðan gegn þeirri samþykkt þingsins. Til upprifjunar hljóðar sú samþykkt upp á að endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á tilgreindum sviðum. Tilgreind voru tilgreind 12 atriði, þar á meðal atriði nr. 8, sem er að endurskoða löggjöf um háskóla og fjölmiðla.

Með lagasetningunni um ný heildarlög um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013, sem voru samþykkt af Alþingi fyrir aðeins þremur mánuðum, var svo sannarlega brugðist við þingsályktun þingmannanefndarinnar um viðbrögð Alþingis við rannsóknarskýrslunni. En með frumvarpi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra nú er gengið gróflega á svig samþykkt Alþingis um eigin viðbrögð við rannsóknarskýrslunni. Varla geta það verið viðunandi vinnubrögð til að skapa öfluga og upplýsta almenna umræðu í lýðræðisríki, eða hvað?