142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú fer að líða að lokum þessa mánaðar og samkvæmt einlægum vilja forseta þingsins og margra þingmanna viljum við endilega klára þetta þing fyrir mánaðamót, enda átti það ekki að verða eins og fyrsta sumarþingið sem ég tók þátt í fyrir fjórum árum þegar mikil átök voru um bæði aðild að Evrópusambandinu og Icesave. Það þing stóð lengi.

Nú eru mörg átakamál komin inn á þetta þing og einsýnt að það muni dragast nema þingið taki ákvörðun um að forgangsraða. Það erum við sem ráðum. Eigum við að bíða eftir því að foringjarnir eða formennirnir taki ákvörðun eða ætlum við að taka ákvörðun um það hvaða mál er brýnast að klára á þessu sumarþingi? Það kemur alltaf þing eftir þetta þing, ekki satt?

Mig langar því að skora á samþingmenn mína, sem margir hverjir vilja að þingið hafi meira vægi og meiri völd en sé ekki einungis einhvers konar stimpilstofnun fyrir framkvæmdarvaldið, að sýna í verki að við höfum þetta vald. Það þarf að skoða hvaða mál er hægt að klára og hvaða mál er ekki hægt að klára. Veiðigjaldið er til dæmis vanbúið og þarf annaðhvort að fara fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu eða það þarf að finna einhverja lausn á því. Það hlýtur að vera eitt af forgangsmálunum að tryggja að veiðigjaldsmálið svokallaða fari í farsælan farveg.

Hagstofumálið svokallaða er einnig vanbúið og ætti að taka samstundis út af dagskrá þingsins.