142. löggjafarþing — 14. fundur,  26. júní 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[17:24]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að í kostnaðarmatinu segir að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að bráðabirgðaákvæðið sem er stærsti hluti skerðinganna mundi falla úr gildi í langtímaáætluninni sem fyrrverandi stjórnvöld unnu eftir. Síðan hefur líka komið fram í umræðunni að það virðist hafa verið eitthvað sem fjármálaráðuneytið tók upp hjá sjálfu sér en ekki verið í anda þess sem velferðarráðuneytið lagði til. Ég vil bara ítreka það.

Hér er hins vegar lagt til að hluti af þeim kjaraskerðingum sem var farið í 2009 verði afturkallaður. Þetta er fyrsta skrefið. Ég er sannfærð um, í anda þess sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, að þegar við komum fram með frekari breytingar, hvort sem það verður í fjárlögum eða í sérstöku frumvarpi, muni hún styðja það.