142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt það sem er óútfært í aðgerðaáætluninni og líklega ein ástæða þess að ekki er hægt að ráðast í beinar aðgerðir strax heldur verður að stofna starfshópa og skoða kosti og galla. Það er óútfært hvernig þessar aðgerðir allar munu koma við efnahagslegan stöðugleika í þjóðfélaginu. Það er óútfært hvaða áhrif þær munu hafa á stöðu ríkissjóðs til dæmis og hvort þær séu þensluhvetjandi.

Það er ástæða þeirra varnaðarorða sem ég fór yfir áðan. Það er margt sem bendir til þess að þessar aðgerðir muni beinlínis leiða til meiri óstöðugleika, þær muni skapa þenslu og þar með meiri verðbólgu og þar með hærri vexti og þar með verri stöðu heimilanna. Það er hættan. Og ef þær auka skuldir ríkissjóðs hækka þær skatta framtíðarinnar og þar með versnar staða heimilanna líka.

Við fjöllum öll um þessi mál út frá þeim sjónarhóli að við viljum bæta stöðu heimilanna en mér sýnist við hafa æði mismunandi sjónarhorn á málefnum.