142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

nýjar reglur LÍN um námsframvindu.

[10:57]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Greint hefur verið frá því að Lánasjóður íslenskra námsmanna þurfi að skera niður um hálft annað prósent á næsta fjárlagaári. Stjórnarformaður LÍN og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra staðfesta að gerð verði krafa um að námsárangur verði 75% í stað 60% og að stjórn LÍN hafi ákveðið breytingar á úthlutunarreglum á þeim grunni. Eins og komið hefur fram kemur niðurskurður af þessu tagi helst niður á þeim sem ekki eru í fullu námi, t.d. barnafólki og námsmönnum sem vinna meðfram skóla.

Ef til stendur að ákveða breytingar á úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2013–2014 verður það að teljast afar skammur fyrirvari nú þegar innan við tveir mánuðir eru þar til skólaárið hefst og má því segja að komið sé helst til harkalega aftan að námsmönnum.

Í því samhengi er rétt að nefna að umboðsmaður Alþingis hefur þegar beint þeim tilmælum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og LÍN að tryggja námsmönnum fullnægjandi ráðrúm til að bregðast við breytingum á úthlutunarreglum. Í athugasemdum þar segir að breytingar á úthlutunarreglum þurfi að kynna fyrir fram með skýrum og glöggum hætti og nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir aðilar sem málið snerti hafi ráðrúm til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd.

Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra:

Ætlar hann að ganga gegn góðri stjórnsýslu í þessu frumvarpi sínu og koma í veg fyrir að námsmenn fái nægan fyrirvara eins og þeir eiga rétt á eða ætlar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ásamt stjórnarformanni LÍN að gefa ungu námsfólki falleinkunn, ungu námsfólki sem er að feta sín fyrstu spor inn í framtíðina, og það menn sem þekkja kannski á eigin skinni hvernig er að fá falleinkunn í einni viðamestu úttekt á íslensku samfélagi?