142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér heyrist á þeim stuttu ræðum sem haldnar voru áðan að ég hafi kannski ekki talað alveg nógu skýrt svoleiðis að ég vil ítreka það sem ég sagði: Þegar nefndirnar skila afrakstri sínum förum við að sjálfsögðu yfir það jafnóðum, stjórnmálamennirnir í þinginu, ekki bara stjórnarliðar. Þá munu menn vinna það áfram í sameiningu og gefst tækifæri fyrir bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu til þess að koma á framfæri athugasemdum um hvað betur megi fara eða þess vegna að bæta einhverju við, koma með athugasemdir um eitthvað sem mönnum þykir skorta. Það stendur því svo sannarlega til að viðhafa samráð í þinginu um þessi mál þó að sérfræðinefndirnar verði ekki á stöðugum fundum með stjórnmálamönnum á meðan þær reikna og setja upp sín excel-skjöl.