142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

ályktun Evrópuráðsins og landsdómur.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Spurningin um hvort staðfesta beri frumvarp sem samþykkt var á síðasta þingi til breytinga á stjórnarskránni getur staðið og ætti ávallt að standa alveg sjálfstætt óháð öðrum álitaefnum, en það er hægt að taka undir það með hv. þingmanni að það mundi þá skapast tækifæri til að gera þá breytingu. En við erum svo sem rétt að hefja umræðuna um það hvað taka ætti við. Ég sé það fyrir mér að við getum verið án landsdóms jafnvel þó að við ætlum að hafa skýr ákvæði í ráðherraábyrgðarlögum um að gerist menn brotlegir við lög sem gegnt hafa æðstu embættum, eins og ráðherrar, þurfi þeir að sæta ábyrgð vegna þess. Við erum svo sem komin langt á veg í þessari umræðu. Við munum þurfa að ræða það t.d. hvar vista eigi ákæruvaldið, hvort eða með hvaða hætti þingið ætti mögulega að hafa aðkomu að því, hvort menn ættu að treysta á það fyrirkomulag sem við erum með núna almennt í refsimálum eða hvort það ætti að koma upp einhverju sérstöku fyrirkomulagi vegna ráðherraábyrgðarlaganna. Það er umræða sem við eigum eftir að taka, en það er hárrétt hjá hv. þingmanni að stjórnarskrárbreytingin er liður í því og það er hugsandi að við getum hrint þeirri breytingu í framkvæmd strax á þessu kjörtímabili.

Hitt er síðan algert aðalatriði, af því að við ræðum ályktun Evrópuráðsins, að það heyrist hátt og snjallt hingað til þingsins að (Forseti hringir.) menn eru í raun og veru að fordæma það sem gerðist hér á síðasta þingi.