142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Forseti. Já, enn um þetta sem kom fram áðan að þetta dugi ekki litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hv. þm. Edward Huijbens sagði áðan að lítil fyrirtæki mundu einfaldlega fara á hausinn. Það er alveg rétt hjá honum. Og hverjir eru þá líklegir til þess að taka til sín þær veiðiheimildir sem hin litlu og meðalstóru fyrirtæki höfðu áður? Það eru stærri fyrirtæki. Það að fara fram með óbreytt veiðigjald eins og það var fyrirhugað, ef hægt hefði verið að innheimta það, hefði að óbreyttu valdið samþjöppun í greininni. Er það það sem við viljum? Nei, það viljum við ekki.

Það frumvarp sem fyrir liggur er ekki gallalaust eins og ég sagði áðan. Það er til eins árs, það er bráðabirgðaráðstöfun. Við höfum tímann fram á næsta þing til að vinna hér sjávarútvegs- og fiskveiðistefnu til framtíðar vonandi í sem mestum friði og sem mestri sátt en sú sátt verður ekki gerð með því að þjappa enn saman veiðiheimildum til örfárra risastórra fyrirtækja. Það sem fyrirliggjandi frumvarp gerir líka er að það kemur til góða þeim fyrirtækjum sem eru á þeim landsvæðum þar sem erfiðast hefur verið að halda úti sjávarútvegi undanfarið, þ.e. Suðurland, Reykjanes, Vesturland, Vestfirðir, þannig að um leið og þetta frumvarp veitir aukið rekstraröryggi litlum og meðalstórum fyrirtækjum þá er það líka byggðaaðgerð í sjálfu sér.

Vonandi getum við nýtt tímann vel í framtíðinni til að setja okkur alvörustefnu til framtíðar, að því ári liðnu sem við erum að nota núna í þessa bráðabirgðaráðstöfun og tökum saman höndum um að finna lausn á málinu til framtíðar sem allir eða flestir geti unað við.