142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[21:31]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir mikið talnaflóð. Það er ekki að sökum að spyrja, hann er mjög talnaglöggur, sem lýsir sér best í því þegar hann vitnar í fyrrverandi alþingismenn og finnur út að eðlilegt kvótaverð sé 180 kr. á hvert kíló af þorski. Sem segir mér (ÖJ: Ég sagði það aldrei.) að ef þorskverð er 300 kr. þá eru 180 kr. af því 60% og við vitum að 40% fara í mannalaun þannig að þá er ekki króna eftir af því dæminu. Ekki þarf því skarpan mann til að sjá að leiga á þorskkílói upp á 180 kr. hlýtur að vera einhver jaðarleiga. Það geta verið alls konar mál, menn geta verið í vandræðum, menn geta veitt þetta sem aukategund, þeir eru að veiða eitthvað annað, þeir geta verið komnir fram yfir og til þess að missa ekki veiðileyfið, en það byggir enginn afkomu veiða á svona útreikningum.

Það er líka hugarfarið hjá fyrrverandi ráðherra sem stingur mig svolítið. Ég er reyndar aðeins farinn að venjast því. Hann talar um útgerðarauðvaldið og ekki er langt síðan ég heyrði í öðrum fyrrverandi ráðherra sem talaði um útgerðarliðið. Þetta sýnir viðhorf sumra til þessarar atvinnugreinar. Við erum að ganga hagsmuna einhverra úti í samfélaginu, einhverra vina eða jafnvel okkar sjálfra, það glymur hér oft.

Hvað erum við að gera, þessir stjórnarflokkar? Jú, við erum að standa við loforð. Þessir tveir flokkar lofuðu báðir að lækka veiðigjald, sögðu að veiðileyfagjaldið væri of hátt. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, það er ekki langt síðan voru kosningar þannig að það þarf ekki að koma neinum á óvart þó að við lækkum veiðigjaldið. Svo má deila um það hvort verið sé að lækka það. Það heyrðist hér í síðustu ræðu að útgerðarvinirnir væru að fá afslátt upp 6 eða 10 milljarða eða hvað menn kjósa að kalla það eða hvaða tölur menn nefna. Hvað segir það ef afslátturinn er upp á 10 milljarða, hve hátt átti gjaldið að vera þá? Hvaða tölur eru menn að tala um? Ef þú hættir við að hækka einhverja vöru er ég þá að lækka hana? Þetta eru svo afstæð hugtök og það má æsa fólk upp í það að verið sé að lækka og lækka en það eru svo margar breytur í þessu, hvað ætlum við að veiða mikið o.s.frv. Við erum með arðsemi frá 2011, heimfærum hana upp á árið 2013 eða 2014 en samt erum við ekki alveg með sömu magntölur í afla.

Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem telja að aldrei hafi borið jafnlítið á milli ólíkra sjónarmiða varðandi stjórn fiskveiða. Allir eru sammála um að útgerðin eigi að greiða eðlilegt veiðileyfagjald, aðeins er deilt um útfærslu þess og hversu hátt gjald útgerðin þoli, um það snýst málið. Það er verið að vitna í Framsóknarflokkinn, að bera það upp á hann að hann hafi verið að vísa í sáttanefnd margumtalaða. Það er alveg rétt. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður þeirrar nefndar, staðfesti það í ræðu hér fyrr í kvöld að þessi breytingartillaga, þetta frumvarp, væri alveg í anda þessarar sáttanefndar, í niðurstöðum sáttanefndar. Það er bara þannig.

Ég tel að vinnubrögðin í atvinnuveganefnd hafi verið málefnaleg og upplýsandi fyrir alla nefndarmenn og mat meiri hlutans var að flestir gestir töldu þær breytingar sem frumvarpið felur í sér vera mjög til bóta þótt sumir vildu nálgast sömu markmið á annan hátt og aðrir vildu gera enn meiri breytingar á gildandi lögum. Það var nú bara þannig.

Sá einlægi sáttavilji sem birtist hjá minni hluta nefndarinnar í lok síðasta fundar fólst í því að hækka gjaldið umtalsvert eins og sést í breytingartillögu þeirra. Það var öllum ljóst, það þurfti ekki að eyða miklum tíma í að ræða það. En minni hlutinn er ekki að leggja til aðra aðferðafræði. Þeir leggja til að breyta handvirkt þeim tölum sem þeim ekki þóknast. Þeir taka tölur sem þeim finnst lágar og hækka þær handvirkt, tölur sem þeim persónulega finnst lágar. Til hvers er þá verið að reikna, til hvers er þá verið með einhverjar formúlur? Við erum að reikna út arðsemi, við erum að reikna út þennan margumtalaða umframhagnað. Eigum við þá ekki að nota einhverja formúlu? Eigum við að nota hana bara þegar það hentar, bara ef gjaldið hækkar?

Þessi útreikningur á auðlindarentunni — það er ekki gallalaust að reikna sameiginlegan hagnað út frá stórri atvinnugrein. En við erum sammála um að borga sérstakt veiðileyfagjald sem hlutfall af reiknaðri rentu, um það er ekki deilt. Endalaust er hægt að deila um aðferðafræði við arðsemisútreikningana, að ég tali nú ekki um svo stóra og flókna atvinnugrein. En það er ekki verið að stinga upp á því.

Hvers vegna hækkar sérstakt gjald á uppsjávarfisk en lækkar á botnfisk? Ástæðurnar eru tvær. Annars vegar hefur verðvísitala uppsjávarafla hækkað um 25% á meðan verðvísitala botnfisksafla hefur lækkað um 6,2%. Hins vegar er verið að koma til móts við þá gagnrýni að útgerð án vinnslu sé að greiða gjald af arði sem verður til við vinnslu aflans. Útgerðin greiðir í sumum tilfellum hlutfall af rentu sem verður til í óskyldum rekstri, hvaða sanngirni er í því? Deila má um það hve hátt hlutfall af reiknaðri rentu í fiskvinnslu á að reiknast inn í veiðileyfagjald til útgerðar. Ef við hækkum hins vegar handvirkt gjald á botnfiski, eins og minni hluti atvinnuveganefndar leggur til, af því að einhverjum finnst það of lágt, þá er ekki til neins að hafa nefnd og nota flókna útreikninga frá mörgum stofnunum til að reikna út ímyndaðan umframhagnað. Annaðhvort notum við þessa reiknireglu eða ekki.

Útgerð án fiskvinnslu greiðir hagnað sem verður til í fiskvinnslu. Í gögnum veiðigjaldsnefndar og atvinnuvegaráðuneytis kemur fram að útgerð án fiskvinnslu stendur ekki undir veiðigjöldum þar sem 80% af reiknaðri rentu úr fiskvinnslu reiknast með. Því leggur hún til að 20% af reiknaðri rentu í fiskvinnslu reiknist inn í gjaldið. Áfram þurfa útgerðir án fiskvinnslu að greiða hluta af arði ótengdrar vinnslu. Meiri hluti atvinnuveganefndar notast við þessar reikniaðferðir.

Mönnum verður tíðrætt um gjá á milli þings og þjóðar. Það má vera en ég skynja frekar gjá á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Höfuðborgarbúar verða að gera sér grein fyrir því að þeir þurfa á landsbyggðinni að halda og landsbyggðin á höfuðborginni. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að skattleggja landsbyggðina. Tökum sem dæmi sveitarfélagið Fjarðabyggð. Hvað borgar sjávarútvegurinn í Fjarðabyggð? (Gripið fram í.) Ég er með töflu hérna og eins og sést á henni greiða félögin rúmlega 2,2 milljarða í tekjuskatt vegna ársins 2012. Áætlanir eru um að heildartekjuskattsgreiðslur í sjávarútvegi árið 2012 nemi 9 milljörðum. Þannig greiða sjávarútvegsfélögin þrjú í Fjarðabyggð tæp 25% af tekjuskattsgreiðslum sem koma úr sjávarútvegi. Beinar tekjur hins opinbera og sveitarfélaga í Fjarðabyggð nema rúmlega 4,6 milljörðum af þeim félögum þremur.

Mönnum verður tíðrætt um kvótakerfið og misskiptinguna og að þetta sé að þjappast á færri hendur, en staðreyndin er að 2011 gerðu 20 stærstu fyrirtækin í aflamarkinu út 126 skip, veiddu 84% kvótans, voru með 4.350 manns í vinnu. Aðeins tvö þeirra voru yngri en 30 ára. Þau eru á sama stað, þau hafa verið á sama stað í gegnum tíðina. Starfsfólk í íslenskum sjávarútvegi, þá tala ég um tæknigeirann og þjónustu tengda sjávarútvegi — árið 2012 eru það 25 þúsund plús sem vinna í þessum geirum, einum eða tveimur, hvernig sem við orðum það. Starfsfólk í sjávarútvegi og fiskvinnslu var um 9 þúsund, þannig að það eru þá um 16 þúsund í þessum tæknigeirum sem þjónustar sjávarútveginn.

Hvar eru þau störf? Þau eru hérna í Reykjavík, þannig að virðisaukinn frá þessum sjávarplássum skilar sér inn í Reykjavík. Þessi tæknigeiri er í Reykjavík. Við erum að framleiða flökunarvélar, við erum að framleiða ýmsan tæknibúnað sem fækkar störfum í sjávarútveginum, í frumgreinunum, sem þýðir að fólki fækkar frekar í frumgreinunum á meðan störfum fjölgar hér í Reykjavík. En það dugar ekki til, það er ekki nóg, við þurfum að ná meiru af landsbyggðinni. Við þurfum að skattleggja hana meira. Er ekki mál að linni?

Úti á landsbyggðinni þar sem ég þekki til, í Grindavík, er verið að mynda klasastarf sem snýst um að vera hluti af neti eða klasa og hafa þannig aðgang að utanaðkomandi þekkingu, viðskiptatengslum og hráefni, vera staðsettir í hringiðu upplýsingaflæðis. Ég held að menn geri sér ekki alveg grein fyrir því hvað er að gerast í sjávarútveginum, ég held að menn ættu að fara oftar og kynna sér málið.

Við þurfum þannig samvinnu á landsbyggðinni, tengjast fyrirtækjum böndum og eiga þess kost að byggja á styrkleikum hver annars. Þetta er það sem þessi samfélög eru að gera víða úti á landi. Virðiskeðja fullvinnslu — við höfum nánast verið hráefnisþjóð. Við framleiðum dýrafóður, matvæli, við erum byrjuð að framleiða fæðubótaefni, aðeins byrjuð að fitla við snyrtivörur og heilsufæði, en við eigum lyfin eftir. Mörg þessi fyrirtæki úti á landi eru lögð af stað í þá vegferð og nota hluta af umframhagnaðinum, eða hvað menn kjósa að kalla hagnaðinn, í þá starfsemi, nota hluta í þessa starfsemi. Er ekki hreinlegra að leyfa þeim að gera það, þurfum við endilega að skattleggja þessi fyrirtæki og úthluta þeim svo einhverjum nýsköpunarstyrkjum? Eigum við ekki að veita þeim einhvern afslátt og peppa þau upp frekar en að vera að skattleggja þau til þess að geta svo veitt þeim nýsköpunarstyrki við hátíðlega athöfn? Ég bara spyr.

Höfuðborgin — hérna er margmennið og fjölbreytnin, menning og afþreying, samgöngumiðstöðvar, flutningstæki. Hérna er þjónusta tæknifyrirtækjanna, sölustarfsemin, hið opinbera, læknar og spítalar og flugvöllurinn hér í miðjunni. Nú heyrast háværar raddir um að færa þurfi flugvöllinn. Það er ekkert spurt um hvað það kostar marga milljarða að færa flugvöllinn af því að það vantar pláss til að byggja á, það vantar land hér á Íslandi. Okkur vantar hektara eða einhverja fermetra til að byggja á. Erum við ekki á einhverri vitlausri leið?

Við þurfum að fara að sættast, landsbyggðin og höfuðborgin. Við þurfum að brúa þessa gjá á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Það er bara þannig. Við þurfum að fara að sættast. Landsbyggðin er mjög sátt við að fá að hafa sinn sjávarútveg og landbúnað, orkuiðnað, að einhverju leyti, og ferðaþjónustu, þó að ferðaþjónustan sé mörgum sinnum öflugri hér í Reykjavík eðli málsins samkvæmt. En eins og tölurnar sýna, að fara að skattleggja grunnatvinnuveginn, það er ekki verið að tala um þeir borgi ekki neitt. Þetta snýst um að borga sanngjarnt auðlindagjald, sanngjarna rentu, um það snýst málið. Við erum ekki að deila um hvort það eigi að borga það eða ekki, við erum ekki að deila um fiskveiðikerfið. Það eru allir sammála um að við erum með fullkomnasta og arðbærasta fiskveiðikerfi í heimi. Menn hafa verið að vitna í Noreg, hvernig menn hafa auðlindagjöldin í Noregi. Það hefur komið fram að það er enginn arður út úr sjávarútveginum í Noregi þó að þeir veiði miklu meira en við. Hann ætti að vera miklu hagkvæmari, sjávarútvegurinn þar.

Við viljum hafa þjónustuna hér í Reykjavík, þetta er höfuðborgin. Þetta er höfuðborg okkar landsmanna og opinbera þjónustan, fyrir mig persónulega á hún bara að vera hér. Ég vil bara að fólk hvar sem það er á landinu geti flogið til Reykjavíkur og þar er spítalinn og hin opinbera þjónusta, þar er þetta allt saman. Mér finnst þetta alveg brilljant tækifæri.

Við eigum að geta haft það mjög gott hérna ef við bara hættum þessu þrasi, hættum að þrasa um kvótakerfið — nú erum við að tala um auðlindarentuna, það er ekki einu sinni verið að rífast um hvernig eigi að reikna hana. Það eru einhverjir sem vilja grípa handvirkt inn í og hækka einhverja tölu af því að hún er of lág. Ég segi bara: Annaðhvort notum við þessa tölu eða ekki, annaðhvort notum við þessa reikniaðferð eða ekki.

Við í atvinnuveganefnd fengum flottar töflur frá veiðigjaldsnefndinni með öllum þessum útreikningum og ýmsa möguleika: Viljum við hafa 80% rentu af vinnslunni, að útgerðin borgi það, 60%, 40%, 20%? Við fórum í 20% af því að þetta geta í mörgum tilfellum verið óskyldir aðilar. Þar er uppsjávarfiskurinn með 38 kr. á meðan botnfiskurinn er 7,38 kr. Af hverju er það? Af því að það bara reiknast þannig, það er sama reikniregla á báða flokka. Þetta lítur ekki vel út á pappír en ef við ætlum að nota þessa reikniaðferð skulum við fara eftir henni. Við förum ekki að hækka þetta og lækka hitt. Þá gætum við eins sett puttann upp í loftið og ákveðið þetta þannig.

Við þurfum að hætta þessu þrasi, við þurfum að ná þessu unga og menntaða fólki sem við eigum inn í sjávarútveginn. Það gerum við með þessari klasastarfsemi, það gerum við með því að reyna að komast upp í lyfjageirann. Við erum byrjuð að framleiða plástra og ýmis smyrsl. Menn eru að opna augun fyrir því hversu gífurleg verðmæti eru í þessum fiski okkar þannig að við skulum frekar sameinast um að gera sem mest úr þeim verðmætum.

Menn hafa misjafna pólitíska sýn á hlutina. Sumir vilja skattleggja og skammta það svo í formi einhverra nýsköpunarstyrkja. Aðrir vilja leyfa þessu að koma af sjálfu sér og umbuna mönnum á einhvern annan hátt. En þetta argaþras og þessar gömlu lummur sem maður hefur verið að hlusta á hér í kvöld, litlu útgerðirnar að leigja kvóta af þeim stóru, þessu er alltaf stillt upp litlu gegn stóru, endalaust verið að því. Þá kemur alltaf einhver meðaumkun með þeim litlu.

Stórútgerðir, ég er búinn að spyrja nokkra aðila sem tala mest um þessar stórútgerðir hvar mörkin séu. Hvað er stórútgerð? Fyrir mér er smábátaútgerð, það eru þessi 30 tonn þar sem frítekjumarkið er. Venjulegur trillukarl, það kom í ljós þegar aflaheimildum var úthlutað eftir reynslu að það voru ekkert margir yfir 30 tonnum af þessum einyrkjum sem voru einir á báti, þannig að 30 tonnin eru, finnst mér, eðlileg ef við viljum á annað borð umbuna þessum hópi, ef við viljum umbuna þessum fiskimönnum á sama tíma. Og svo koma forsvarsmenn þeirra og ítreka hvað þetta sé hagstæður veiðimáti, hvað þetta sé hagstæð útgerð, hvað það kosti lítið fyrir samfélagið að veiða á þessar trillur, að hitt séu bara olíuhákar og ég veit ekki hvað og hvað. Samt ætlum við ekki að láta þá borga neitt sem eru með hagstæðasta og að margra mati skemmtilegasta veiðiskapinn, 30 tonn, einhverjar 6–10 tonna trillur. Við vitum að þessi sjávarpláss byggja ekki afkomu sína, þau halda ekki uppi vinnslu í fiskhúsum sínum, út á svona smábáta. Það vita allir sem það vilja vita.

80% þjóðarinnar vilja hafa gjaldtöku, það er alveg rétt, það vilja allir hafa gjaldtöku, það vilja útgerðarmenn líka. Það vilja allir borga, það vilja meira að segja allir borga sérstakt veiðileyfagjald, sé það bara hóflegt. Svo getum við þrasað um það eða deilt um það hvað er hóflegt, hve mikið af reiknaðri rentu á að ganga til útgerðar og hve mikið til þjóðarinnar. Menn eru enn að tala eins og deilt sé um það hvort þetta sé sameign þjóðarinnar. Ég hélt að það væri bara ekki deilt um það, það væru allir sammála um að þessi auðlind er sameign þjóðarinnar.

Ég hvet menn til að ræða þetta á málefnalegum nótum, fara ekki í gömlu sporin og voðalega þætti mér vænt um ef menn hættu nú að tala svona niður til útgerðarinnar, þetta útgerðarlið og útgerðarauðvald og hvað það er, það væri hægt að skrifa heila bók. Í guðanna bænum förum að tala á jafnréttisgrundvelli.