142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[22:23]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við erum í áframhaldandi 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Fyrst ber að geta þess að fyrir liggja, frá meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar, nokkrar breytingartillögur við frumvarpið. Í fyrsta lagi er þar um að ræða breytingartillögu sem mætir þeirri gagnrýni sem verið hafði uppi á frumvarpið að því er varðar aðkomu starfsmanna Ríkisútvarpsins að stjórn þess. Þar er sem sagt gert ráð fyrir því að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn mann og annan til vara með málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég tel að þessi breyting sé til bóta. Hún er í samræmi við þau viðhorf sem við höfum haft uppi hvað þennan þátt málsins varðar.

Í öðru lagi er gerð tillaga um að fjölga í stjórn útvarpsins frá því frumvarpi sem menntamálaráðherra lagði hér fram, úr sjö í níu. Ég hef skilið það þannig að það væri gert í því augnamiði að koma til móts við þá gagnrýni að breiddin í stjórn Ríkisútvarpsins væri ekki nægilega mikil og er góðra gjalda vert að það sé gert. Ég vonast þá að sjálfsögðu til að það verði tryggt, verði þetta frumvarp að lögum, við það kjör sem færi þá fram hér á hv. Alþingi að það þýði raunverulega aukna pólitíska breidd í stjórn Ríkisútvarpsins. Eins og frumvarpið er lagt upp er gert ráð fyrir því að allir stjórnarmenn séu kjörnir hér á Alþingi.

Við höfum hins vegar gagnrýnt það fyrirkomulag sérstaklega og teljum að það frumvarp sem var samþykkt á vorþingi fyrir kosningar, um breytingar um lögum um Ríkisútvarpið, þar sem gert var ráð fyrir annars konar fyrirkomulagi, þar sem ráðherra skipaði formann en síðan mundi sérstök valnefnd gera tillögu um fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins, og að þessari valnefnd stæði í fyrsta lagi allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, með fulltrúa í valnefndinni til að tryggja tengingu inn í pólitíkina sem við töldum að ætti að vera til staðar — við höfum alls ekki sagt að hún ætti ekki að vera til staðar. Í öðru lagi samtök listamanna til að tryggja faglega tengingu inn í menningar- og listageirann og í þriðja lagið háskólasamfélagið til að tryggja tengingu inn í akademíska umfjöllun um fjölmiðlamál. Við hörmum að sjálfsögðu að til standi að breyta því fyrirkomulagi sem var samþykkt hér í vor og þar af leiðandi styðjum við ekki málið eins og kemur fram í nefndaráliti sem við stöndum að og gerð var grein fyrir í ítarlegu máli við 2. umr. málsins af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem var framsögumaður minni hlutans í málinu.

Ég fagna því að sjá einn hv. þingmann Framsóknarflokksins hér í sal og annan á forsetastóli við þessa umræðu. Ég hafði reyndar vissu fyrir því, fyrir ekki löngu, að allmargir þingmenn Framsóknarflokksins væru hér í húsinu í kvöld. Ástæða þess að ég nefni þetta er að ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við framsóknarmenn um þetta frumvarp alveg sérstaklega. Það helgast af því að Framsóknarflokkurinn stóð að þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum um Ríkisútvarpið hér í vor. Bæði var það að fulltrúi Framsóknarflokksins þá í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins stóð að nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar á 141. þingi. Það var þáverandi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem skrifaði undir það álit og Framsóknarflokkurinn studdi það frumvarp þáverandi ríkisstjórnar í atkvæðagreiðslu. Enn eru á þingi og í núverandi þingflokki Framsóknarflokksins nokkrir þingmenn sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu og studdu málið.

Ég nefni hv. þm. Ásmund Einar Daðason sem mér þykir nú eiginlega miður, virðulegur forseti, að sé ekki hér í þingsalnum. Ég hafði gert mér vonir um að hann yrði hér í þingsal og tæki þátt í umræðunni um þetta mál. Ég vil einnig nefna hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Braga Sveinsson, sem var hér í umræðum um málið, tók þátt í atkvæðagreiðslunni og studdi frumvarpið. Sömuleiðis hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, sem einnig studdi málið og greiddi atkvæði með því. En auk þess voru hér þingmenn á síðasta löggjafarþingi Sigfús Karlsson, fyrir Framsóknarflokkinn, Siv Friðleifsdóttir, sem ég hef áður nefnt, og Birkir Jón Jónsson — þau tóku þátt í atkvæðagreiðslum um þetta mál og studdu það; Birkir Jón Jónsson var varaformaður Framsóknarflokksins til skamms tíma.

Það er bagalegt að fá ekki skýringar á því frá þingmönnum Framsóknarflokksins, í þessari umræðu um Ríkisútvarpið, hvað veldur sinnaskiptum flokksins í málinu. Hvað veldur því að Framsóknarflokkurinn hefur nú á fáum vikum snúið algjörlega við blaðinu að því er varðar afstöðu sína til þess fyrirkomulags við stjórn Ríkisútvarpsins sem við ræðum hér í 3. umr.? Við erum, virðulegur forseti, komin í 3. umr. um þetta mál og enn hefur enginn þingmaður Framsóknarflokksins tekið til máls. Ég fletti því upp á vef Alþingis hvernig væri háttað ræðum framsóknarmanna í þessu máli á þessu þingi og þá kemur í ljós að einn hv. framsóknarmaður kemur fram á ræðulistanum og það er hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, sem nú var að stíga úr forsetastóli. Og hvað var það sem hann hafði að segja um málið í 1. umr.? Jú, hann var þá á forsetastóli og las útbýtingu þingskjala. Það er það eina sem við höfum heyrt frá Framsóknarflokknum. (Gripið fram í: Gerði það vel. ) — Já, hann hefur sjálfsagt gert það mjög vel en ég er ekki viss um að menn hafi orðið mikið betur að sér um afstöðu Framsóknarflokksins til þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar.

Ég kalla eftir því, nú við þessa síðustu umræðu um málið, að framsóknarmenn komi hingað í salinn, fleiri en hv. þm. Willum Þór Þórsson, sem ég þakka fyrir að er hér og hlustar á þessa ræðu. Þá er ég einkum og sér í lagi að hugsa um þá þingmenn sem voru hér á síðasta kjörtímabili í þingflokknum, og hæstv. forseta, og studdu þá þær breytingar sem lagðar voru til á lögunum um Ríkisútvarpið og höfðu verið lengi í undirbúningi — það hafði verið vandað mjög til undirbúnings þess frumvarps og það unnið í prýðilega góðri sátt.

Reyndar var það þannig, ef maður lítur nú á Sjálfstæðisflokkinn, að flestir þingmenn hans sátu hjá í atkvæðagreiðslunni um málið. Þar með talið hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Nokkrir þeirra greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en flestir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins völdu að sitja hjá í málinu. Höfðu sem sagt ekki það sterka sannfæringu gegn því fyrirkomulagi sem þá var lagt til að þeir sæju ástæðu til að greiða atkvæði gegn frumvarpinu heldur sátu hjá. Ég minnist þess ekki að í aðdraganda kosninganna í vor, nýlega eftir að frumvarpið hafði orðið að lögum, að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, til að mynda hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hefði gert það að sérstöku umtalsefni í kosningabaráttunni að þessum lögum þyrfti að breyta hið fyrsta og hafa hraðar hendur og helst á sumarþingi eins og okkur er boðið upp á í þessu máli nú.

Virðulegur forseti. Þetta harma ég og enn og aftur kalla ég eftir því að einhverjir þingmenn Framsóknarflokksins komi hér upp í þessa umræðu og láti þetta mál ekki fara fram hjá sér. Láti málið ekki einhvern veginn renna sér úr greipum án þess að hafa að minnsta kosti flutt eins og eina eða tvær ræður og gert grein fyrir afstöðu Framsóknarflokksins og af hverju Framsóknarflokkurinn skiptir nú algjörlega um skoðun og gengst inn á þá línu sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra leggur hér til.

Ég vil síðan aðeins víkja nokkrum orðum að umfjöllun og gagnrýni sem hefur komið fram úr röðum sjálfstæðismanna á það fyrirkomulag sem var samþykkt í lögunum í vor. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sagði meðal annars hér í þingræðu að hann hefði viljað hafa þessa pólitísku tengingu algjörlega skýra og ábyrgðina og þess vegna ætti að velja allt útvarpsráðið hér á Alþingi. Hann lét jafnvel að því skína að þegar honum hefðu borist tilnefningar frá tilnefningaraðilum samkvæmt gildandi lögum hefði hann tekið ákvörðun um að flytja þetta frumvarp. Nú er ég ekki alveg viss um að það hafi verið nákvæmlega í þeirri röð en alla vega féllu þessi orð.

Ég rek síðan augun í að einn hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem nú er genginn í salinn, hv. þm. Brynjar Níelsson, skrifar grein á bloggsíðu sína í dag undir heitinu: Fagmennska ef það er rétta fólkið. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn eru með böggum hildar yfir því að ríkisstjórnin ætli að herða á pólitísku valdi yfir Ríkisútvarpinu.“ — Staðfestir það sem sagt að herða eigi pólitískt vald yfir Ríkisútvarpinu. — „Þetta er sama fólkið og tilnefndi í stjórn Ríkisútvarpsins fólk úr innsta kjarna sinna flokka þegar það fór með völdin. Á sama tíma tilnefndi Sjálfstæðisflokkurinn fagmann úr lista- og menningargeiranum sem enginn kannast við að hafa séð í Valhöll.“

Í þessu sambandi vil ég geta þess að Vinstri hreyfingin — grænt framboð tilnefndi reyndan fjölmiðlamann til setu í stjórn Ríkisútvarpsins sem ekki kom úr innsta kjarna flokksins svo að það sé líka sagt og því haldið til haga. (Gripið fram í.) Áfram segir í greininni, með leyfi forseta:

„Svo var lögunum breytt í tíð síðustu stjórnar til að fá hina „ópólitísku“ Kolbrúnu Halldórsdóttur í stjórn Ríkisútvarpsins. Hafi einhver áhuga á að festa Ríkisútvarpið í pólitíska fjötra eru það núverandi stjórnarandstöðuflokkar.“

Virðulegur forseti. Ég tel að hv. þm. Brynjar Níelsson veitist hér með ómaklegum hætti að fyrrverandi þingmanni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem er forseti Bandalags íslenskra listamanna, átti langan feril sem listamaður áður en hún tók sæti á Alþingi og hefur algjörlega hætt afskiptum af stjórnmálum eftir að hún lét af störfum sem þingmaður og tók við áðurnefndu embætti og er valin af hópi listamanna til að taka sæti í stjórn Ríkisútvarpsins eftir gildandi lögum.

Virðulegur forseti. Ég verð að mótmæla harðlega þeim orðum sem hv. þingmaður lætur frá sér fara í grein sinn á bloggsíðunni 2. júlí 2013 kl. 09.36. Mér finnst þetta ómaklegt og mér finnst að þingmaðurinn ætti að biðja þingmanninn fyrrverandi, Kolbrúnu Halldórsdóttur, afsökunar á þessu.

Virðulegur forseti. Ég sé ekki að það fjölgi mikið framsóknarmönnum í þessum sal — kannski einn sem hefur bæst í salinn frá því áðan. Ég ítreka að mér finnst það sjálfsögð kurteisi að svona stór og myndarlegur þingflokkur, eins og Framsóknarflokkurinn er orðinn eftir síðustu kosningar, láti svo lítið að koma og gera grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli, gera grein fyrir þeim sinnaskiptum sem orðið hafa á afstöðu flokksins frá því fyrir nokkrum vikum þegar hann studdi þær breytingar sem voru gerðar á stjórnarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins og á lögunum um Ríkisútvarpið frá því í mars síðastliðnum og fram að þeim tíma að hann tekur nú sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og tekur þátt í að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til.