142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[14:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það liggur í hlutarins eðli að þessi umræða mun verða frekar yfirborðskennd. Þó verð ég að segja að í ræðunni sem hv. þm. Brynhildur S. Björnsdóttir flutti var komist að kjarna málsins. Ég vil jafnframt taka undir margt af því sem kom fram í máli hv. þm. Róberts Marshalls.

Ég tel mjög mikilvægt, þegar við hittumst í september á hinum svokallaða septemberstubbi, að við förum í ítarlega umræðu um þetta mál. Fyrst við komum hvort eð er saman í september finnst mér tilvalið, til að leggja grunninn að haustþinginu, að við notum sumarið til að fara ítarlega í þessa skýrslu. Það er ekki úr vegi að þær nefndir sem eiga að fjalla um skýrsluna hittist og fari vel yfir það sem við þurfum að læra af henni. Þetta snýst að sjálfsögðu fyrst og fremst um það hvaða lærdóm við getum dregið af þessu og hvað við þurfum að gera strax.

Það kom skýrt fram í morgun, þegar við fengum skýrsluhöfunda til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að eitthvað þyrfti að gera strax. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, og þetta er glimrandi tækifæri til að fara í heildarendurskoðun, sem svo sárlega þarf að gera, og taka ákvarðanir í tengslum við húsnæðiskerfi landans. Mér líður svolítið eins og ég sé alltaf í einhverju endurteknu efni sem ég þó var ekki hluti af þegar kemur að umræðum um húsnæðiskerfi Íslendinga.

Það er alltaf verið að tala um að leigumarkaðurinn sé í molum. Hann hefur sjaldan verið eins slæmur og hann er í dag. Af hverju? Af hverju hafa þeir sem fara út í stærstu fjárfestingu lífs síns, sem er þak yfir höfuðið, svona lítil réttindi? Fyrir langflesta er þetta stærsta fjárfesting lífsins.

Þessi skýrsla gefur okkur vísbendingu. Ég vil þó hvetja alla þá nýju þingmenn sem hér eru og þá sem hafa verið hér lengur og hafa ekki gefið sér tíma til að lesa hina ótrúlega mögnuðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hina fyrri, að samlesa þessar tvær skýrslur. Þegar við fáum síðan skýrsluna um sparisjóðina mun það gefa okkur mjög góða vísbendingu um það hvert við þurfum að fara og hvað við þurfum að gera.

Ég tek undir það með þingmönnum að við eigum ekki að fara í skotgrafir. En við verðum líka að búa til ábyrgðakeðju í samfélagi okkar sem er á þann veg að þeir sem valda svona miklu samfélagslegu tjóni, annaðhvort með aðgerðaleysi eða með því að taka að sér stöðu sem þeir valda ekki, verði að axla ábyrgð þó að það sé ekki nema með því að segja af sér. Í öllum öðrum löndum sem við berum okkur saman við er það þannig. Þó svo þú sért ekki ábyrgur persónulega í ákveðinni stofnun fyrir einhverju sem gerst hefur, einhverju sem starfsmaður þinn gerir, þá segir þú af þér. Það býr til heilbrigðara samfélag. Ef fólk sem veldur mestum skaða í samfélaginu kemst alltaf upp með það, hvers konar skilaboð erum við þá að senda öðrum? Það er brotið samfélag sem leyfir að það sé þannig að þeir sem valda mestu tjóni komist alltaf upp með það og fá jafnvel stöðuhækkun. Það er ekki gott samfélag. Það er ekki heilbrigt samfélag. Ég varð að koma aðeins inn á þetta.

Það kom líka fram á þessum fundi í morgun — sem mér fannst athyglisvert og mikilvægt og vil gjarnan að við notum sem grunn þegar við förum að skoða hvers konar húsnæðiskerfi við ætlum að hafa hérlendis — að það þýðir ekki að tjasla endalaust í ónýta flík með bútasaum. Ástandið er orðið þannig með Íbúðalánasjóð að hann er í mjög slæmri stöðu. Það fylgja honum miklar skuldir og það hefur komið fram, og kom fram á síðasta þingi, þar sem ég var þingmaður fyrir annan flokk og sat í velferðarnefnd og öðrum nefndum, að staða sjóðsins er mjög slæm.

Mér finnst ekkert að því að við förum, á meðan við höfum tíma, í að endurhanna kerfið frá grunni eins og nefndarmenn sem sátu í þessari rannsóknarnefnd lögðu til. Mér finnst það ótrúlega spennandi verkefni. Mér finnst það spennandi að því gefnu að við lærum af fortíðinni og setjum líka ábyrgðakeðju inn í þau nýju kerfi sem við ætlum að smíða saman. Auðvitað eiga allir flokkar að koma að því. Og auðvitað eigum við að kalla til sérfræðinga, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, til að fá lánaða hjá þeim dómgreind, þekkingu og visku.

Þetta íbúðalánasjóðskerfi — mjög margir Íslendingar halda að það hafi enn þá félagslegan undirtón. Það er mjög langt síðan sá félagslegi undirtónn og þau félagslegu markmið sem þessi sjóður stóð fyrir hurfu. Ef einhvern tímann hefur verið tilefni til að skoða húsnæðismál á heildrænum grunni, bæði út frá leigumálum — ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef verið á leigumarkaði mjög lengi sjálf og neyddist til að kaupa mér húsnæði út af því að það var orðið svo dýrt að leigja, sem er sorglegt, því það er þannig að sumum hentar bara betur að vera í leiguhúsnæði. Það á að vera þannig að það sé val hjá fólki hvort það vilji festa sína framtíð í steypu eða ekki. Ég er ekki viss um að við munum nokkurn tímann hafa leigumarkað á Íslandi. Ég er eiginlega búin að gefast upp á þeirri tilhugsun. Það er meira að segja þannig úti í grasrótinni — ef hinn ágæti maður Jón frá Pálmholti hefði ekki komið á einhverjum réttindum fyrir leigjendur, ef hann hefði ekki verið til, væru kannski ekki enn þá til leigusamningar. Það er nú bara þannig. Því miður nýtur þess góða manns ekki lengur við. Það hefur enginn tekið boltann hans. Er það ekki á ábyrgð stjórnvalda að tryggja neytendarétt? Er það ekki á ábyrgð okkar?

Það kemur fram í þessari skýrslu að þingmenn og embættismenn ýmiss konar og ráðherrar og ráðuneyti og ýmsar mikilvægar stofnanir stóðu sig ekki sem skyldi. Hvað getum við gert til þess að laga þetta? Ég held að það eigi að vera meginstefið.

Ég vildi óska þess að við mundum líka geta kallað hlutina réttum nöfnum. Það er eitt af því sem við verðum að hætta að gera, það er að ráða pólitískt í mikilvægar stöður. Það er spilling. Það heitir ekki neitt annað, en það má ekki kalla það spillingu. Hættum að ráða pólitískt í svona rosalega mikilvægar stöður. Því að hæfa fólkið, sem vill vera virkilega góðir embættismenn, það fær aldrei vinnu, nema það gangi í einhvern flokk. Getum við ekki reynt að breyta þessu? Er ekki kominn tími til að við lærum af reynslunni?

Hérna höfum við í fjórum bindum, ásamt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem spannaði átta plús eitt bindi, og svo fáum við rannsóknarskýrsluna um sparisjóðina — þarna er efniviðurinn, lærdómurinn, til að byggja hið nýja Ísland, sem er ekki lengur í umræðunni, en er það eina rétta sem við þurfum að gera eftir hrun. Það er eins og við höfum ekki lært neitt af hruninu. Þetta var ekkert svokallað hrun, þetta var alvöruhrun. Við erum enn að finna áhrifin af því.

Allar krísur, sem samfélagið eða einstaklingar lenda í, eru annaðhvort til að halda áfram í sama fari, fara enn dýpra niður eða ótrúlegt tækifæri breytinga. Látum þessa skýrslu verða ótrúlegt tækifæri til alvörubreytinga. Ég skora á samþingmenn mína að gera það.