142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[14:40]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi skýrsla sem okkur barst í gær sagði mér svo sem ekki mikið nýtt. Ég held að mörgum hafi verið ljósar helstu niðurstöður, fyrir þó nokkuð mörgum árum, sennilega 2006 og 2007, um stóru atriðin. Það voru mörg varnaðaráhrif og nú þurfum við að velta fyrir okkur hvað brást, hverjir brugðust. Margir sem hafa tekið til máls hafa bent á stjórnendur sjóðsins, ráðgjafa þeirra, eftirlitsaðila. Ég held að stærstu mistökin liggi hjá stjórnmálamönnum, þeim sem ráða langmestu. Það voru ótrúlega mikil mistök að þessi sjóður lét af sínu félagslega hlutverki, hann fór í samkeppni við bankana, með ríkisábyrgð á bakinu, sem þýddi auðvitað lægri vexti, sem þýddi það að lánskjörin urðu betri, sem þýddi það að húsnæðisverð hækkaði. Þetta er ekki spurning um að hafa skoðun á þessu eða ekki. Þetta er það sem gerist við þessar aðstæður. Íbúðalánasjóður er bara orðinn venjulegt fjármálafyrirtæki á lánamarkaði í samkeppni með þeirri áhættu sem því fylgir og sú áhætta kemur nú í bakið á okkur öllum.

Stjórnendur tóku margar rangar ákvarðanir, það er alveg ljóst. Það var röng ákvörðun að fara að lána einkabönkunum með peningum sem fengust fyrir uppgreiðslu, og taka þar að auki meira lán til að lána bönkunum. Þetta voru mistök og hugsanlega, eins og niðurstaða rannsóknarinnar ber með sér, ekki einu sinni lögmætt að gera. Ef það er rétt þá eru þetta sennilega mestu umboðssvik sögunnar.

En varðandi eftirlitsaðilana sem margir benda á — hvaða eftirlit brást? Var það ekki aðallega eftirlit Alþingis og ráðuneytisins? Menn benda á Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn höfðu bara mjög takmarkaðar heimildir í lögum til að bregðast við, nánast engar. Enda lá fyrir pólitísk ákvörðun um að lög um fjármálafyrirtæki giltu ekki um Íbúðalánasjóð. Það var ákvörðun stjórnmálamanna auðvitað. Þannig að stóra og mikla ábyrgðin er hjá stjórnmálamönnum. Við skulum ekki reyna að varpa henni allri á eftirlitsaðila og stjórnendur Íbúðalánasjóðs.

Auðvitað eru það kannski stærstu mistökin af öllum að Alþingi skyldi heimila uppgreiðslu lántakenda hjá Íbúðalánasjóði án uppgreiðslugjalds enda er það niðurstaða skýrslunnar að mesta tjónið stafi af því. Langstærsti hluti tjónsins sem við verðum fyrir er út af þessu. Þegar við erum að tala um pólitísku ábyrgðina þá hafa menn fyrst og fremst bent á Framsóknarflokkinn. Ég er ekkert viss um það — ekki ætla ég nú að verja Framsóknarflokkinn sérstaklega — að hann beri meiri ábyrgð en margir aðrir flokkar hér. (Gripið fram í.) Ég held að við berum öll ábyrgð, allir flokkarnir bera ábyrgð.

Ég var að vísu ekki hrifinn af því loforði sem var gefið sem vakti auðvitað ákveðnar væntingar. Það var vont loforð, slæmt loforð en þetta er ekki stóra málið. Hér fór fram umræða um það. En húsnæðismál hafa einhvern veginn alltaf verið á könnu félagshyggjuflokkanna eða þeirra sem kenna sig við félagshyggju. Við í Sjálfstæðisflokki höfum viljað að um þetta gildi almennar reglur og höfum bent á, sem rannsóknarnefndin gerir raunverulega líka, að það er eiginlega bara um tvennt að ræða. Annaðhvort er Íbúðalánasjóður í félagslegu hlutverki fyrir þá sem þess þurfa eða ekki, hann á ekki að bjóða öllum lán með ríkisábyrgð, það er hættulegt og það átti ekki að gera.

Ef menn fara í það, eins og var gert, að lána öllum er verið að taka alveg ótrúlega mikla áhættu fyrir hönd skattgreiðenda sem á endanum lendir á skattgreiðendum. Þetta eru ótrúlega stór og mikil mistök og þeir sem eru í stjórnarandstöðu tóku undir þetta á sínum tíma. Þó að þetta hafi verið loforð Framsóknarflokksins þá vildu meira að segja sumir ganga enn lengra og hafa lánin hærri en boðið var.

Við skulum passa okkur á að benda ekki bara á einhvern einn. Stjórnmálamenn, Alþingi, bera hér langmestu ábyrgðina. Við verðum einfaldlega að læra af þessu og við verðum að hugsa núna: Hvað eigum við að gera? Hvað er næst á dagskrá? Nú liggur þessi skýrsla fyrir.

Okkur ber skylda til að koma á húsnæðiskerfi, fara úr skotgröfunum, sem gerir að verkum að allir eigi möguleika á að fá þak yfir höfuðið með hliðsjón af greiðslugetu og aðstæðum í staðinn fyrir að lána með ríkisábyrgð til allra eins og hægt er. Fyrir þá sem þurfa, aðra ekki. Ef við ætlum á annað borð að halda Íbúðalánasjóði þá á hann að verða félagslegur sjóður, ef við ætlum að hafa hann í samkeppni þá skulum við einkavæða hann. Annað væri óeðlilegt í mínum huga. Við þurfum að taka ákvörðun um þetta en aðalatriðið er að koma á einhverju kerfi — sem við verðum að drífa okkur í því að tíminn er naumur, þetta er allt í uppnámi — þannig að við getum lágmarkað áhættu ríkissjóðs, þannig að aðeins þeir fái slíka aðstoð sem þess þurfa.