142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ágætisábendingar sem hv. þingmaður kemur með inn í umræðuna, t.d. að eftir kosningar geti sama ríkisstjórn starfað áfram. Það er út af fyrir sig rétt svo langt sem það nær vegna þess að ekki er hægt að útiloka að þó sömu flokkar starfi áfram komi margir nýir inn í þinglið beggja flokka og breytingar verði á ráðherraskipan — sem er kannski frekar hægt að gera ráð fyrir að yrði jafnvel þó sömu flokkar héldu áfram samstarfi. Það kann að kalla á þörfina fyrir rýmri tíma.

Það er líka rétt, sem hv. þingmaður bendir á, að það getur gerst að ný ríkisstjórn taki til starfa ef upp úr slitnar í stjórnarsamstarfi skömmu fyrir þingsetningardag. Ég held að við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. þingmaður, að slík ríkisstjórn væri í miklum vanda. Hún væri í afar þröngri stöðu. Við erum ekki að reyna að leysa slíkan vanda hér, við erum bara að bregðast við þeirri stöðu sem við okkur blasir með bráðabirgðaákvæði sem einungis gildir í haust. En þetta hlýtur að kalla á almennari skoðun á þessum vanda.

Ég geri mér líka grein fyrir því að það er ekkert lögmál að alltaf sé boðað til kosninga á vorin. Það kann að vera að ríkisstjórn skili umboði sínu að hausti til og kosningar fari til dæmis fram í nóvember. Við slíkar aðstæður væri sannarlega ekki sama tilefnið til að fresta þingsetningardegi á haustinu tæpu ári síðar. En það eru ekki heldur þær aðstæður sem við erum að bregðast við núna. Við erum að bregðast við aðstæðum sem ég tel að séu nokkuð óvæntar, hafi ekki verið teknar með í reikninginn þegar þessar breytingar hafa verið gerðar hver á fætur annarri, fyrst að færa þingsetningardaginn fram, síðan að gera kröfuna um að tekjuöflunarfrumvörpin kæmu á sama tíma og fjárlagafrumvarpið og svo hafa þessir dagar verið að færast nær upphafi septembermánaðar. Nú erum við stödd í júlí á þingi. Það er við þessum aðstæðum sem við erum að bregðast.