142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá og hæstv. menntamálaráðherra fyrir að draga nokkuð í land með áform sín. Það er allt of sjaldgæft að ráðherrar gangist við mistökum sínum þegar þau eru gerð og það að endurskoða þessi áform, þó að of lítið sé að gert, er fagnaðarefni, enda er alveg augljóst að hér skorti samráð og vandaðan undirbúning.

Ég tek eindregið undir með hv. þingmanni Framsóknarflokksins, Haraldi Einarssyni, þetta er auðvitað enginn fyrirvari á svona breytingum. Þetta eru vinnubrögð sem urðu allt of algeng hér eftir hrun, bráðaaðgerðir, stundum kannski af nauðsyn en allt of oft að óþörfu.

Við þurfum að hafa samráð, vanda undirbúning og gæta þess að ákvarðanir sem varða þúsundir manna séu þannig teknar að ekki þurfi að draga í land og breyta þeim strax vegna þess að þær séu svo augljóslega gallaðar.

Því miður, þetta er sjálfskaparvíti. Ríkisstjórnin hefur hér á sumarþingi ákveðið að lækka veiðileyfagjald um liðlega 6 milljarða. Þessi aðgerð hér er 1/50 hluti þess niðurskurðar sem þarf að fara í á næsta ári til að mæta eftirgjöfinni til stórútgerðarinnar. Í 50 svona niðurskurðarleiðangra, gagnvart námsmönnum, inni á spítölunum, í menntaskólunum, í háskólunum, þarf stjórnarmeirihlutinn nú að fara vegna þess að hann hefur skrifað gjafatékka til stórútgerðarinnar, í sérhagsmunagæslu sem engin innstæða var fyrir.