142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

um fundarstjórn.

[11:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þannig er það nú í þessu frumvarpi að þessir svokölluðu vinir okkar sem við eigum að vera að færa einhverja milljarða kr. núna í gjöf, eins og það er orðað hér af minni hlutanum, að við erum að hækka gjöldin á þá um milljarða. Við erum að rétta kerfið af. Við erum að taka til baka þá gjöf sem fyrri meiri hluti færði stærstu útgerðarfélögum landsins með því að gefa mjög vitlaust í síðustu lögum. Það er nú einfaldlega staðreyndin um þetta mál. (Gripið fram í.)

Hér er ekki verið að lækka tekjurnar af því frumvarpi sem upphaflega var lagt fram vegna þess að breytingar á tölum innbyrðis gera það að verkum að tekjurnar verða áfram þær sömu.

Varðandi kolmunna þá er hann ásamt nokkrum öðrum tegundum í þeirri stöðu að það borgar sig ekki að sækja hann. Það borgar sig ekki að fara til veiða á kolmunna miðað við núverandi gjaldtöku. Er þá ekki ástæða til að ætla það að útgerðirnar fari bara ekkert og veiði þennan fisk? Það getur átt við aðrar tegundir einnig og sýnir það hversu vitlaust kerfið er og tillitslaust. Þær vega reyndar miklu minna í þjóðhagslegu samhengi. (Forseti hringir.) Stærsta upphæðin er í kolmunnanum og við erum að laga kerfið til (Forseti hringir.) þannig að það borgi sig að sækja þessar tekjur fyrir þjóðarbúið. (Forseti hringir.) Við drögum úr ákveðnum útgjöldum í frumvarpinu á móti (Forseti hringir.) þannig að tekjurnar verða þær sömu eftir sem áður. Þvílík speki. Hér er verið að gera úlfalda úr mýflugu, ekkert annað.