142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:39]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að svo stöddu ætla ég að láta eins og ég hafi ekki heyrt lokaorð hv. þingmanns (HöskÞ: Þú hefðir kannski átt að …) enda voru þau honum til skammar. (HöskÞ: Já, er það?)

Varðandi niðurskurð fór ég ítarlega yfir hann í ræðu minni. Varðandi loforð eru þetta svik á loforðum Framsóknarflokksins í aðdraganda og eftirleik kosninga. Þar var talað um að draga allar skerðingar til baka. Það er ekki verið að því. Það er verið að draga skerðingar til baka á þá sem mest hafa, frú forseti. [Frammíköll í þingsal.]

Ég kallaði eftir því að hv. formaður fjárlaganefndar skýrði út hvað hún hefði átt við þegar hún sagði, frú forseti, að skila ætti fólki skerðingunum. Átti hún við að það ætti að greiða allt til baka sem safnast hefur upp í gegnum árin? Eða átti hún við að byrja á þeim sem hafa mest og taka svo kannski hina ef ekki þarf að gefa meiri afslátt af veiðigjöldum?

Það er eðlilegt að þingmenn séu tilbúnir til að útskýra loforð sín sem búa til væntingar hjá fólki sem er með lágar tekjur. Hver einasta króna sem bætist við eykur lífsgæði þess, þó ekki meira en svo að fólk berst við það að eiga fyrir nauðþurftum. Hv. þingmaður þarf að horfast í augu við það að ríkisstjórn hans forgangsraðar ekki í þágu þess hóps (Forseti hringir.) með þessu frumvarpi. (Gripið fram í.)