142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað þannig að ný ríkisstjórn hefur tekið við, ríkisstjórn með aðrar áherslur en sú fyrri. Og ég tel að það sé vel. Mig langar að koma því að, vegna þeirrar vinnu sem unnin hefur verið við að koma á fót nýju skipulagi almannatrygginga, að fjármálaráðuneytið var ekki með í þeirri vinnu. Öryrkjabandalagið sagði sig frá þeirri vinnu þannig að það er augljóst að sú vinna er ekki klár.

Er það svo að þingmaðurinn heldur því fram að betra hefði verið á þessu stutta sumarþingi að lögfesta heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, heildarendurskoðun á nokkrum dögum hér í þinginu, frekar en að fara í það mál sem við tölum um hér? Ófjármagnað frumvarp sem var lagt hér fram af síðustu ríkisstjórn á síðustu vikum síðasta þings — með hreinum ólíkindum að menn hefðu ekki getað gert það fyrr. Hefðu þeir ætlað sér það í einhverri alvöru að koma þessum breytingum í gegn hefðu menn nú kannski átt að gera það fyrr og ljúka umræðum um það hvernig hafi átt að fjármagna þær breytingar.

En eins og fyrri ríkisstjórn gerði títt og yfirleitt með sín mál þá lögfesti hún hér frumvörp sem áttu að fjármagnast einhvern tímann í framtíðinni.