142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég undraðist það líka að einmitt þetta atriði skyldi ekki vera að finna í frumvarpinu. Ég átti allt eins von á því að Sjálfstæðisflokkurinn næði því líka fram strax í fyrstu umferð að efna þetta kosningaloforð sitt. Það er nefnilega rétt, eins og hv. þingmaður bendir á, að það er einmitt áherslan á þessa hópa, þá sem hafa fjármagnstekjur, þá sem hafa viðbótartekjur, þá sem eiga eignir, sem einkennir Sjálfstæðisflokkinn í þessum málaflokki og það er ekkert óeðlilegt við það. Það eru ákveðnir hópar sem hann hefur ákveðið að standa vörð um og beita sér fyrir. Það eru aðrir hópar sem við jafnaðarmenn höfum ákveðið að tala fyrir og beita okkur fyrir í þessu efni. Ekkert óeðlilegt við það en ég geri ráð fyrir því að við munum tiltölulega fljótlega sjá komið til móts við þennan hóp, fjármagnseigendur sérstaklega, sem hv. þingmaður nefnir ef ég þekki Sjálfstæðisflokkinn rétt. En það fáum við að sjá þegar fjárlögin koma fram ef þeim verður þá ekki frestað enn meira en orðið er.