142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir sem hlýða á ræðu hv. þingmanns skynja ákveðna fordóma. Ég skynja ákveðna fordóma gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Nú er það þannig að á þeim 18 árum sem menn segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ráðið einn á Íslandi var velferðarkerfið aukið sem aldrei fyrr. Framlög í velferðarkerfið jukust gífurlega og mér er sérstök ánægja af því að framlög til málefna fatlaðra jukust sem aldrei fyrr; var ekki vanþörf á og enn má bæta. Þetta tal um það að Sjálfstæðisflokkurinn gæti bara hagsmuna fjármagnseigenda og ríkra, staðreyndir sýna annað. Hv. þingmaður getur kannað hvað ríkisútgjöld til velferðarmála jukust mikið þegar Sjálfstæðisflokkurinn var, að því er sagt er, einn við völd. Ég veit náttúrlega betur, hann var ekki einn við völd en því hafa menn haldið fram.

Varðandi frumvarpið þá snýst það um að grunnlífeyrir er ekki skertur. Ég get ekki séð að það sé til hagsbóta fyrir þá sem eru ríkir eða tekjuháir. Það gengur líka út á það að atvinnutekjur skerða ekki lífeyri eins mikið og áður, þ.e. að eldra fólk og þeir sem eru sprækir geti unnið eitthvað áfram án þess að það komi beint niður á lífeyri frá Tryggingastofnun. Er það eitthvert sérstakt áhugamál tekjuhárra eða Sjálfstæðisflokksins? Þessir fordómar hv. þingmanns falla um sjálft sig og ég hefði viljað sjá þingið byrja öðruvísi með minnihlutapólitíkina, hvernig hún bregst við og hvernig hún svarar og kemur inn í mál sem hér eru lögð fram. Ég hefði viljað að umræða hefði orðið málefnaleg — og að mörgu leyti var ræða hv. þingmanns málefnaleg, ef hún hefði verið það eingöngu hefði ég verið ánægður með hana.