142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:22]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, takk fyrir andsvarið, fyrsta andsvarið sem ég fæ eftir að ég tók sæti á Alþingi. Þetta var mjög pent og huggulegt, takk fyrir það. Ég er alls ekkert hrædd við að stíga upp í ræðustólinn. Ég get ekki tekið afstöðu til þess hvort ég sé sammála því eða ekki, Öryrkjabandalaginu, með þessa samningstaktík eða strategíu. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þeim gekk til þegar þau sögðu sig frá þessari vinnu. Væntanlega voru þau bara alls kostar ósátt við hvert stefndi, mér heyrðist það þegar við í velferðarnefnd fórum og hittum Öryrkjabandalagið, þeim fannst ekki hlustað á sig. Þá er kannski hreinlegra að vera ekki partur af samkomulaginu ef maður er ekki sáttur við það. Ég veit það ekki. Nú er ég bara með getgátur, er bara að hugsa þetta upphátt.