142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla þá að byrja á að hrósa hv. þingmanni á nýjan leik en í þetta skiptið fyrir hógværðina. Ég þykist vita að glöggskyggni hans hafi átt hlut að máli og býsna athyglisvert að fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins lýsi því yfir úr ræðustól Alþingis að hæstv. forsætisráðherra hafi í gærkvöldi flutt eða látið flytja frumvarp til laga um sjálfan setningardag Alþingis þar sem vafi lék á túlkun — var þannig úr garði gert að sá vafi hefði getað leitt til deilna um lögmæti eða gildi laganna og hvenær þingið ætti að koma saman.

Þetta er í besta falli vandræðaleg handvömm hjá hæstv. forsætisráðherra og er enn ein áminningin til stjórnarmeirihlutans um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið á þessu stutta sumarþingi. Komið er inn með mál seint og illa, þau eru iðulega tekin á dagskrá með afbrigðum og jafnvel breyting á sjálfum þingsköpunum, grundvallarreglunum hér í þinginu, þar sem við höfum um langt árabil forðast að beita meirihlutaofbeldi — að það sé gert með þessum hætti og reynist svo þegar á hólminn er komið svo illa gert að það samræmist ekki með góðu móti ákvæðum stjórnarskrárinnar og skapar vafa um það hvenær þjóðþing landsins eigi að koma saman.

Virðulegur forseti, ég ítreka þakkir mínar til hv. þm. Brynjars Níelssonar fyrir að hafa bjargað okkur frá því að samþykkja eitthvað þessu líkt hér í þinginu. Það hefði lítill sómi verið að því lokakvöldi hér í þinginu að ganga svo illa um löggjöfina um þingið sjálft.