142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég útskýrði það í ræðu minni áðan að stjórnarandstöðuflokkarnir, m.a. minn flokkur, hefðu verið reiðubúnir til að greiða fyrir því að þetta mál gæti fengið einhverja afgreiðslu eins og ríkisstjórnin hafði ámálgað með þeim hætti sem ég lýsti. Ástæðan fyrir því — og það þýðir ekki að við séum alltaf á móti öllum breytingum á þingsköpum, ég hef ekki sagt það. Ég sagði ekki að við værum á móti öllum breytingum á þingsköpum, en ég legg áherslu á að þær séu gerðar í sátt og samlyndi.

Það sem fyrir okkur vakir með því að vilja þingsetningardag 10. september og fjárlagafrumvarpið er að stytta ekki þann tíma sem fjárlaganefnd og Alþingi hefur til að fara yfir það mál. Við viljum auðvitað helst að tekjuöflunarfrumvörpin komi á sama tíma, en það hefði kannski verið til samkomulags frágangssök eins og ég sagði að þau hefðu hugsanlega komið 1. október ef það er dagurinn sem ætlað er að þau verði tilbúin, þannig að fjárlaganefnd gæti í öllu falli hafið vinnu sína við fjárlagafrumvarpið, hægt væri að mæla fyrir því, hægt væri að byrja að fá inn umsagnir og annað slíkt eins og gert er og undirbúningsvinna fjárlaganefndar gæti hafist. Ég tel að það hefði alla vega verið betri niðurstaða og betri lausn en sú sem hér er boðið upp á.