142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[21:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka lofið og vil endurgjalda það vegna þess að hv. þm. Freyja Haraldsdóttir kenndi mér að segja fatlað fólk en ekki fatlaðir. Á því er reginmunur. Þegar maður talar um fatlað fólk er verið að vísa til einstaklingsins, en þegar talað er um fatlaða er það einhvers konar samheiti sem getur verið og er stundum niðurlægjandi.

Varðandi það sem hér er um að ræða, vinnu þessarar nefndar sem vann gott og mikið starf og ræddi mikið alls konar hluti, upplifi ég það þannig að það sé stefnumótun til framtíðar að samræma almannatryggingar, lífeyrissjóði og greiðslur úr þeim sem og að líta á 75% örorkumatið. Ég tel örorkumatið vera arfavitlaust, það hindrar alla endurhæfingu og kemur í veg fyrir að menn geti starfað. Það undirstrikar það viðhorf að líta á hvað maðurinn getur ekki, 75% öryrki — ör-yrki — í staðinn fyrir að segja: Hann hefur svo og svo mikið starfsgetumat.

Það sem mér fannst miður var að Öryrkjabandalagið leit á skammtímavandamál sem er vissulega til staðar, um að lífeyrir hafi almennt ekki hækkað eftir hrun eins og skyldi, og þeir fórnuðu í raun langtímahagsmunum fyrir skammtímahagsmuni sem hefði mátt leysa annars staðar og er t.d. núna til umræðu, þ.e. hvernig við getum bætt öryrkjum — ég er farinn að nota orðið öryrkjar — hvernig við getum bætt því fólki sem hefur ekki fulla vinnugetu það tjón sem það hefur orðið fyrir eftir hrun.