142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[21:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. gerði ég grein fyrir minni afstöðu til þessa máls sem byggir fyrst og fremst á því að ég tel að með þeirri breytingu sem hér er lögð til sé tryggt að stjórnarskrárbreytingar muni ekki eiga sér stað nema um þær verði allvíðtæk samstaða. Með þessari breytingu er verið að setja tvo mikilvæga þröskulda við stjórnarskrárbreytingum. Annars vegar er gerð krafa um samþykkt 2/3 í þinginu sem er meira en er í dag. Í dag getur einfaldur meiri hluti þingsins samþykkt stjórnarskrárbreytingu, reyndar kallar það á kosningar og síðan annað þing þar sem einfaldur meiri hluti getur líka samþykkt. Með 2/3 reglunni er sett inn fyrra skilyrðið sem hlýtur auðvitað að kalla á allvíðtæka samstöðu í þinginu til að stjórnarskrárbreyting nái fram að ganga. Síðara skilyrðið er auðvitað krafa um að mál gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu og krafan þar byggir á því að meiri hluti greiddra atkvæða og þó aldrei minna en 40% þeirra sem eru á kjörskrá samþykki stjórnarskrárbreytingu. Það er í mínum huga líka trygging fyrir því að menn muni ekki ráðast í stjórnarskrárbreytingar nema um þær sé allgóð sátt.

Það leiðir af þessari reglu að vissulega er hægt að koma stjórnarskrárbreytingu í gegn ef til þess næst 2/3 stuðningur í þinginu og ef a.m.k. 40% segja já. Það þýðir þá væntanlega í umdeildum málum að kosningaþátttaka þarf að vera ansi mikil, nær 80%, sem er allmikil krafa. Ég held að með þessu, þó að aðferðin sé ekki fullkomin, sé engu að síður þannig frá málum gengið að stjórnarskrárbreytingar verði ekki gerðar nema að vel yfirlögðu ráði og um þær sé sátt.

Ég legg líka áherslu á að ákveðinn tímafrestunarþáttur er í ákvæðinu sem gerir að verkum að ákveðinn tími þarf að líða frá því að mál er afgreitt í þinginu og þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram. Það dregur úr hættunni á því að stjórnarskrárbreytingar séu keyrðar í gegn á óhæfilega skömmum tíma.

Ég segi um þá þröskulda sem hér um ræðir að ég hefði persónulega kosið að það væru enn þá harðari skrúfur eða hærri þröskuldar í þessum efnum. Ég hefði alveg getað hugsað mér að hindranirnar væru fleiri. Ég lít hins vegar svo á að þarna sé engu að síður um að ræða verulegar tryggingar gegn því að lítill meiri hluti keyri stjórnarskrárbreytingar í gegn gegn harðri andstöðu.

Ég vil hins vegar líka leggja töluvert upp úr þeirri yfirlýsingu sem forustumenn flestra stjórnmálaflokka á Alþingi hafa fallist á í tengslum við framhald málsins. Þar er kveðið á um að forsætisráðherra skipi níu manna nefnd, tilnefnda af fulltrúum þingflokka hér í þinginu, sem muni vinna áfram að stjórnarskrárbreytingum. Þetta er atriði sem við sjálfstæðismenn kölluðum mjög mikið eftir á síðasta kjörtímabili, að mál væru sett í þennan farveg, þannig að unnið væri í samráði og samvinnu milli flokka í þinginu að breytingum í þessum efnum. Ég legg töluvert upp úr því að málin hafi farið í þann farveg.

Ég legg líka mikið upp úr því að ég get ekki séð betur en að það sé sameiginlegur skilningur þeirra sem að þessu standa, þar á meðal þeirra þriggja formanna stjórnmálaflokka, stjórnarandstöðuflokka, sem eru flutningsmenn frumvarpsins, að unnið verði að breytingum í sem víðtækastri sátt. Ég segi fyrir sjálfan mig að ég er ekki á móti því í grundvallaratriðum að gera breytingar á stjórnarskrá, ég er hins vegar á móti því að gera breytingar á stjórnarskrá í bráðræði. Ég er á móti því að gera of miklar og róttækar breytingar í einu. Ég er á móti því að reynt sé að keyra í gegn stjórnarskrárbreytingar sem veruleg andstaða er við. Ég held að stjórnarskrá eigi einfaldlega að vera þokkalega óumdeilt plagg og menn eigi, hvort sem þeir eru á hægri væng stjórnmála, vinstri væng stjórnmála, á miðjunni eða annars staðar, að geta lifað með stjórnarskránni, að hún sé ekki þannig að nýr meiri hluti á þingi telji sig á hverjum tíma þurfa að breyta stjórnarskrá til að hrinda stjórnmálaskoðunum sínum í framkvæmd. Það á ekki að vera þannig.

Mér finnst útfærslan eins og hún liggur í þessu frumvarpi alls ekki fullkomin og ég hef áður bent á að mér finnst ankannalegt að mörgu leyti, þó að það sé hægt, að hafa tvö ákvæði í gildi á sama tíma sem geta leitt til stjórnarskrárbreytinga. Mér finnst líka ankannalegt að hafa ákvæði um stjórnarskrárbreytingar um stundarsakir, tímabundið ákvæði, eins og þarna er gert ráð fyrir. Mér finnst þetta vera gallar á málinu. Ég get engu að síður fallist á þetta vegna þess að þarna er um að ræða tryggingar sem ég tel allöruggar gagnvart því að ráðist sé í stjórnarskrárbreytingar í trássi við ríkan vilja bæði innan þings og utan.

Það sem mér finnst jákvætt í þessum breytingum er að með því að setja málið í þennan farveg, varðandi það ákvæði sem hér um ræðir, álít ég að í því felist töluvert mikil viðurkenning á því af hálfu a.m.k. flestra stjórnmálaflokka í þinginu að rétt sé að ganga þannig frá stjórnarskrárbreytingum að ekki sé of létt að gera það, að það séu þröskuldar, bæði hjá þingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hindri gáleysislegar stjórnarskrárbreytingar eða dragi úr hættunni á þeim. Mér finnst mikilvægt að sá skilningur hefur nú orðið töluvert víðtækari en var löngum á síðasta kjörtímabili þegar menn töldu að slíkar kröfur væru fullkomin fásinna. Þáverandi meiri hluti vildi gera breytingar að sínu skapi hvað sem minni hluta þess tíma fannst. Það fannst mér ekki rétt nálgun. Ég fagna því að afstaða manna hefur breyst að þessu leyti.

Raunar er efnislegt inntak ákvæðisins, eins og ég rakti í ræðu minni við 2. umr., þ.e. þeir þröskuldar sem þar er að finna, í nokkru samræmi, ekki eins, en í nokkru samræmi við tillögur sem ég átti þátt í að flytja á fyrri árum og sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur ítrekað flutt um nýja aðferð við stjórnarskrárbreytingar með ákveðnum þröskuldum sem sumir hafa kallað belti og axlabönd í þessu sambandi.

Þetta eru efnisleg atriði sem ég get fellt mig við þótt ég hefði persónulega, ef ég hefði setið einn við borðið til að skrifa þetta, gert þetta með einhverjum öðrum hætti. Ég tel að þetta sé eitthvað sem má lifa við.(Gripið fram í.)

Það verður síðan að koma í ljós hvort áhyggjur hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og fleiri eru réttar um að þetta muni leiða til þess að menn muni demba hér inn stjórnarskrárbreytingum í gríð og erg til að reyna að skapa sem mestan ófrið um stjórnarskrána. Ég trúi því hins vegar að þeir forustumenn stjórnarflokka sem undirrituðu yfirlýsinguna í fyrradag meini það sem þeir segi, að þeir vilji setja stjórnarskrárbreytingar á þessu kjörtímabili í farveg þeirrar nefndar sem hæstv. forsætisráðherra mun skipa. Þar verði unnið að þessum málum og tillögum sem koma upp í þinginu verði vísað í þann sameiginlega farveg frekar en að menn noti stjórnarskrárbreytingar til skylminga í þinginu, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur augljóslega áhyggjur af og er kannski alveg ástæða til að hafa áhyggjur af í ljósi fortíðarinnar.

Ég treysti því að góður vilji búi að baki yfirlýsingum forustumanna flokkanna. Ég treysti því að þegar menn standa saman að því að afgreiða þessa breytingu í allvíðtækri sátt, reyndar ekki fullkominni en allvíðtækri sátt, meini menn það sem þeir segja um að stjórnarskráin verði ekki notuð til að búa til pólitísk átök með þeim hætti sem við höfum kynnst á síðustu fimm árum.