142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

dagskrártillaga.

[23:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það eina sem er verið að biðja um hér er að þetta mál sé tekið fyrir og fái þinglega meðferð. Við getum þá tekið upplýsta ákvörðun um það, viðað að okkur upplýsingum, séð hvað er satt og logið í málinu.

Það sem við vitum, það sem við höfum fengið frá Amnesty International, virtustu mannréttindasamtökum heims, er að það sem Edward Snowden gerði var að afhjúpa mannréttindabrot á samborgurum sínum og njósnir á borgurum annarra ríkja, m.a. á Íslandi.

Þetta vitum við. Amnesty International segir að hann hafi verið að upplýsa um og afhjúpa mannréttindabrot leyniþjónustu Bandaríkjaforseta, NSA, og njósnir um íslenska borgara. Eigum við ekki að skoða það að veita þessum manni pólitískt hæli? Hann er pólitískur flóttamaður, hann upplýsti um mannréttindabrot stjórnvalda á borgurum sínum. Eigum við ekki að íhuga það, skoða í nefnd, hvort við séum til í að veita honum pólitískt hæli og gera það með ríkisborgararétti í þessu tilfelli, skoða það?