142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Auðvitað þurfa menn að reyna að ná einhverri yfirvegun til að geta rætt þetta mál. Því miður er það þannig að með þessu máli erum við að færast frá sáttinni. Það hefði verið tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að nálgast hana. Það er ekki svo langt í land. Þau sjónarmið sem þarf að mæta er að þjóðin njóti eðlilegs arðs af sinni auðlind. Það er klárt mál og greinilegt af þeirri undirskriftasöfnun sem fór af stað á dögunum að þjóðin er þeirrar skoðunar að svo sé ekki með þessari lækkun.

Það er sjálfsögð krafa líka að þeir sem stunda útgerð og sjávarútveg á Íslandi njóti arðs af sinni vinnu. Við þurfum að mæta því líka og tryggja það. Við þurfum að gæta að því að það sé eðlileg verðmyndun á kvóta, að það sé kvótamarkaður. Og við þurfum að gæta þess að nýliðar geti nálgast þessa atvinnugrein og tekið þátt í henni.

Þetta er nú allt og sumt sem þarf að nálgast í þessum efnum. En þá verða menn að temja sér að fara upp úr skotgröfunum og upp úr þessari tilfinningasemi (Forseti hringir.) og ná lausn í málinu.