142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hrópa þeir hæst sem síðastliðin fjögur ár hafa farið með völd, síðastliðin fjögur ár hafa skert hlut minnihlutahópa í samfélaginu, [Frammíköll í sal.] hafa í fjögur ár hafa nánast skipulega unnið að því að draga mátt úr íslensku atvinnulífi með þeim afleiðingum að hér horfum við á einhverja minnstu fjárfestingu á lýðveldistímanum í íslensku atvinnulífi. (Gripið fram í.)

Þessi ríkisstjórn er að sýna á sín spil. Hún er að fara þá leið að efna þau kosningaloforð sem hún gaf í kosningabaráttunni. (Gripið fram í: Við LÍÚ.) Hún er að byrja að stíga þau skref að bæta kjör þeirra sem minna mega sín. (Gripið fram í.) Hún er að byrja á að stíga þau skref … [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.) Hún er að byrja að stíga þau skref að efla íslenskt atvinnulíf þannig að það megi verða í framtíðinni sá grunnur að öflugu samfélagi sem þarf að vera. En með þeirri helstefnu sem fráfarandi ríkisstjórn rak hér hefur íslenskt atvinnulíf farið svo niður að það á sér engin fordæmi. Þetta er hin alvarlega staða. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)Við munum núna spyrja að leikslokum. (Forseti hringir.) Við erum bara að byrja. [Hlátur í þingsal.]