142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að gera Alþingi grein fyrir störfum ríkisstjórnarinnar, nú þegar þing kemur saman í septembermánuði. Öll ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands hafa undanfarnar vikur og mánuði unnið að verkefnum sem tengjast stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Jafnframt hefur verið unnið að undirbúningi haustþings og einnig er á hverjum tíma unnið að fjölmörgum reglulegum og lögbundnum verkefnum í öllum ráðuneytum.

Ekki er mögulegt að gera grein fyrir þessari vinnu allri í umræðu sem þessari. Ég mun því stikla á stóru og nefna nokkur dæmi til að veita innsýn í störf ríkisstjórnarinnar. Mörg af verkefnum stjórnvalda eru stór og munu verða viðfangsefni næstu mánaða og ára. Sum þeirra eru þess eðlis að þau munu jafnvel endast út kjörtímabilið og halda áfram á því næsta. Vinna við flest þessara verkefna hófst þegar á fyrstu vikum nýrrar ríkisstjórnar. Rétt er að geta þess að í sumum tilvikum hefur verið haldið áfram með vinnu sem hófst í ráðuneytum í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Grundvallarsýn stjórnvalda á hverjum tíma verður að vera til langrar framtíðar, og á liðnum áratugum hafa miklar framfarir og bætt lífskjör á Íslandi byggst á samvinnu og slíkri framtíðarhugsun. Þannig verður ríkisstjórn að horfa lengra en bara til loka eigin kjörtímabils og spyrja á hverjum tíma: Hvaða breytingum viljum við að samfélagið taki til góðs í framtíðinni og hvaða ákvarðanir þurfum við að taka í dag til að það gerist?

Með slíkri hugsun getum við lagt grunn að lausn helstu verkefna þjóðfélagsins í sameiningu, með trú á tækifæri Íslands og sóknarfæri framtíðarinnar í fyrirrúmi.

Í sumar voru skipaðir sérfræðihópar í samræmi við ályktun Alþingis um aðgerðir vegna skuldavanda íslenskra heimila. Skipaður var sérfræðingahópur sem nú vinnur að tillögum um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og mun gera úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð vegna húsnæðislána. Einnig hefur verið settur á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum og undirbúningur verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála er hafinn. Þá er unnið á grundvelli þingsályktunarinnar í innanríkisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, m.a. vegna afnáms stimpilgjalds, en ég mun nánar gera grein fyrir vinnu í tengslum við þingsályktunina á haustþinginu.

Í samhengi við þetta er hafin vinna við að meta möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána. Það er ljóst að vinnan sem tengist skuldavanda heimilanna er eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar og mun, þegar hún er til lykta leidd, verða til þess að íslensk heimili ná aftur hluta af þeim eignum sem töpuðust í verðbólguskoti áranna 2007–2010. Það er samfélaginu í heild til framdráttar að koma til móts við þessar fjölskyldur. Þar má ekki horfa aðeins í kostnaðinn sem aðgerðirnar hafa í för með sér því að kostnaður samfélagsins verður enn meiri til framtíðar ef ekkert verður gert. Frá þessu verkefni má ekki hvika.

Eitt af stóru málunum fram undan er gerð kjarasamninga. Viðræður aðila vinnumarkaðarins hafa verið undirbúnar og settar í markvissan farveg og ráðherrar munu funda með forustumönnum atvinnurekenda og launþega á morgun þar sem farið verður yfir stöðuna á þeim vettvangi. Engum dylst að ákaflega mikilvægur hluti þess að bæta kjör á almennum vinnumarkaði er að styrkja stöðu atvinnulífsins og bæta starfsumhverfi fyrirtækja. Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar var að hefja vinnu við aðgerðaáætlun um einfalt og skilvirkt regluverk fyrir atvinnulífið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Sú vinna felur í sér ýmsar aðgerðir sem unnið er að í ráðuneytunum, m.a. í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og Viðskiptaráð Íslands.

Kaflaskil urðu í þessari vinnu með ráðstefnu í síðustu viku þar sem erlendir sérfræðingar miðluðu meðal annars af reynslu nágrannalandanna í þessum efnum. Einnig hefur verið skipaður ráðgjafarhópur um opinberar eftirlitsreglur til að vinna með ráðuneytunum að innleiðingu verkefnisins. Þessi vinna byggir undir það markmið ríkisstjórnarinnar að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Henni er einnig ætlað að hjálpa til við að ýta undir nýsköpun og nýtingu vaxtartækifæra framtíðarinnar, enda er ein grunnforsenda vaxtar í atvinnulífinu að óskilvirkar og íþyngjandi reglur verði ekki nýjum og vaxandi fyrirtækjum fjötur um fót. Eitt af því sem einnig skapar skilyrði fyrir aukinn hagvöxt er bætt framleiðni, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum.

Með aukinni framleiðni í opinberri þjónustu má nýta fé betur og styrkja þannig enn frekar undirstöður þeirrar grunnþjónustu sem við viljum að samfélagið veiti. Til að vinna að þessu markmiði hefur verið settur á fót sérstakur hagræðingarhópur sem mun leggja til við ríkisstjórnina leiðir til að hagræða, forgangsraða og auka skilvirkni í ríkisrekstrinum.

Hagræðingarhópnum hafa nú þegar borist mörg hundruð tillögur frá almenningi sem sýnir vel áhuga fólks á því að gera ríkisreksturinn betri og skilvirkari.

Virðulegi forseti. Ekki hefur farið fram hjá neinum að gert hefur verið hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Bæði ég og utanríkisráðherra höfum hitt forustumenn og fulltrúa Evrópusambandsins og gert þeim grein fyrir stöðu mála. Á haustþinginu verður kynnt úttekt á aðildarviðræðunum og þróuninni innan ESB. Utanríkisráðherra mun gera nánari grein fyrir þessum málum á vettvangi þingsins.

Í utanríkisráðuneytinu er unnið að fleiru en Evrópumálum. Þar hefur meðal annars verið unnið að greiningu á áhrifum fyrirhugaðs samnings um viðskipti og fjárfestingar milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á viðskiptatengsl Íslands og þingsályktunartillaga um fullgildingu fríverslunarsamnings Íslands og Kína verður lögð fyrir Alþingi í upphafi haustþings í október.

Þá er einnig hafin vinna við að meta hvernig megi auka útflutning til ríkja og heimshluta þar sem eftirspurn vex hröðum skrefum. Hefur þar sérstaklega verið horft til Asíu og annarra vaxandi markaðssvæða og utanríkisráðherra mun hafa forgöngu um að farið verði með heildstæðum hætti yfir skipulag markaðsstarfs og landkynningar á erlendri grundu.

Þá hófst vinna við tillögugerð um styrkingu á norðurslóðastarfi stjórnvalda í upphafi þessa kjörtímabils þar sem meðal annars verður leitað leiða til að tryggja að verkefni tengd norðurslóðum verði vistuð á Íslandi. Utanríkisráðherra mun í næsta mánuði kynna ný skref sem ríkisstjórnin hyggst taka í norðurslóðamálum. Viðskiptaráð norðurslóða tók til starfa í lok maí og það er sérstakt ánægjuefni að í haust verða haldnar stórar og mikilvægar ráðstefnur um norðurslóðamál í Reykjavík og á Akureyri.

Mikið hefur verið rætt um stjórn fiskveiða síðustu mánuðina og árin. Í sumar setti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra af stað vinnu við endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að skapa sátt um það til framtíðar. Vinnan grundvallast meðal annars á því að samningsbundin réttindi leysi af hólmi ótímabundnar úthlutanir. Þá er einnig hafin vinna við nýtt frumvarp til laga um veiðigjald og er sú vinna leidd af veiðigjaldsnefnd. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skal almennt gjald endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja.

Þá hefur verið hafist handa við að breyta og einfalda kerfi við leyfisveitingar í fiskeldi þannig að leyfisveitingin fari í gegnum skipulagsferli í stað flókins umsagnar- og leyfisferlis. Þessi vinna er hluti af víðtækari vinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þar sem unnið er sérstaklega að því að bæta regluverk og draga úr kostnaði atvinnulífs og almennings með aðgerðum sem í fyrstu munu beinast að almennu viðskiptaumhverfi og þá einkum út frá hagsmunum neytenda og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í framhaldinu er ráðgert að fara kerfisbundið yfir allt regluverk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins með þarfir notenda í huga og meta hvort þær kröfur sem gerðar eru skili árangri.

Eitt af því sem íslenskt efnahagslíf þarfnast mest er fjárfesting og aukin samkeppnishæfni. Aukin fjárfesting styrkir atvinnulíf og kemur heimilum í landinu til góða með fjölgun starfa og betri afkomu. Fjárfestingarvaktin hefur nú skilað til iðnaðar- og viðskiptaráðherra tillögum um úrbætur á samkeppnishæfni Íslands varðandi beina erlenda fjárfestingu og eflingu markaðs- og kynningarstarfs í því skyni.

Í morgun setti ég ráðstefnu um framtíð ferðaþjónustu á Íslandi. Þar voru kynntar niðurstöður umfangsmikillar vinnu Boston Consulting við að greina tækifærin sem liggja í ferðaþjónustu. Hækkun skatta á gistingu var þar hafnað sem skaðlegri aðgerð en þess í stað lögð áhersla á að finna skynsamlegar leiðir til gjaldtöku, leiðir sem tryggi samkeppnishæfni landsins í ferðaþjónustu og nauðsynlega uppbyggingu ferðamannastaða til framtíðar.

Það er afar mikilvægt að við hlúum vel að þessum vaxtarsprota þannig að þeir sem sinna ferðaþjónustu og samfélagið í heild njóti þess sem landið okkar gefur. Þar verða að fara saman til langs tíma uppbygging og náttúruverndarsjónarmið. Þessari vinnu miðar vel í atvinnuvegaráðuneytinu.

Vinna við gerð nýrrar atvinnu- og nýsköpunarstefnu er langt komin en kjarni stefnunnar gengur út á það hvernig auka megi hagvöxt og útflutningsverðmæti. Unnið er að endurskoðun fjögurra ára áætlunar í ríkisfjármálum, með raunhæfum markmiðum um heildarjöfnuð í ríkisfjármálum og lækkun skulda sem hlutfall af landsframleiðslu. Niðurstaða þeirrar vinnu birtist senn í frumvarpi til fjárlaga 2014.

Þá hefur verið unnið áfram að undirbúningi frumvarps til nýrra laga um opinber fjármál þar sem mælt er fyrir um grundvallarbreytingar á framsetningu fjárlaga, ítarlegri stefnumörkun og áætlanagerð í opinberum fjármálum og markvissara eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Verið er að gera heildarúttekt á skattkerfinu með það að markmiði að hámarka verðmætasköpun í samfélaginu og auka tekjur ríkisins. Sem dæmi um fjölmargar breytingar sem nú eru til skoðunar má nefna mat á forsendum þess að taka upp afslátt af tekjuskatti til þeirra sem fjárfesta í litlum fyrirtækjum í vexti. Einnig má nefna drög að breytingum á skattlagningu nauðsynlegra barnavara.

Ný áætlun um afnám fjármagnshafta er í vændum. Þar er sérstaklega litið til þess að lágmarka möguleg neikvæð áhrif vegna uppgjörs föllnu bankanna og að styrkja umgjörð fjármálakerfisins sem er ein forsenda árangursríks afnáms hafta. Á næstu mánuðum verða lögð fyrir Alþingi frumvörp að nýrri löggjöf um fjármálafyrirtæki og nýtt fjármálastöðugleikaráð.

Í innanríkisráðuneytinu er meðal annars hafin vinna sem snýr að því að stytta þann tíma sem hælisleitendur bíða í óvissu um framtíð sína og einnig að því að nýta betur fjármagn ríkisins með því að fækka dvalardögum hælisleitenda hér á landi. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um eflingu löggæslu er unnið að greiningu á því hvernig betur megi tryggja öryggi og þjónustu við almenning og hvernig sjá megi til þess að viðbótarfjármagn sem veitt er til lögreglunnar skili sér í raunverulegri eflingu lögreglu þar sem þörfin er brýnust.

Þá hefur verið skipuð nefnd til að undirbúa millidómstig, en höfuðmarkmið þeirrar vinnu er að tryggja almenningi nauðsynlegar umbætur á dómskerfinu, auka skilvirkni og gera íslenska dómskerfið sambærilegt dómskerfum nágrannaþjóða.

Innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins er nú unnið að því að stytta nám fram að stúdentsprófi um eitt ár. Einnig er unnið er að því að leggja mat á hvernig samþætta megi og styrkja háskólanám á Íslandi. Áhersla verður lögð á eflingu iðn- og tæknigreina og sú vinna unnin í samráði við menntastofnanir, vinnuveitendur og launþega.

Verkefnastjórn rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða hefur hafið störf við 3. áfanga rammaáætlunar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnur nú ásamt fleiri aðilum að undirbúningi umhverfisþings sem fjalla mun um sjálfbæra þróun. Það fer fram í Hörpu þann 8. október næstkomandi.

Virðulegur forseti. Allir þegnar samfélagsins þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda á lífsleiðinni. Mikilvægt er að tryggja réttlátari, einfaldari og gegnsærri skiptingu á hlutdeild einstaklinga og hins opinbera í kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Með þetta markmið í huga er nú unnið að samræmdu greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu. Þar verður meðal annars kannað hvort og hvernig megi fella allan heilbrigðiskostnað einstaklinga undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag þannig að þátttaka fólks í heilbrigðiskostnaði verði takmörkuð. Þá er hafinn undirbúningur að innleiðingu á þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu með áherslu á bætta þjónustu sem tryggi sjúklingum viðeigandi úrræði, aukna skilvirkni og betri nýtingu fjármuna. Samhliða verður heilsugæslan efld sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, enda mun hún gegna lykilhlutverki í þjónustustýringunni.

Í samræmi við markmið stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er nú unnið að stefnumörkun um lýðheilsu og forvarnastarf. Víðtæk innleiðing hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu hefst eftir áramót og sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir til að sporna við offitu og tengdum sjúkdómum. Þá er stefnumörkun í áfengis- og vímuvörnum á lokastigi. Fyrr í sumar voru tekin fyrstu skrefin til afnáms skerðinga í almannatryggingakerfinu.

Haldið verður áfram á þeirri braut á komandi mánuðum og einnig er stefnt að því að ljúka heildarendurskoðun laga um almannatryggingar. Breytingar munu fela það í sér að tekið verði upp starfsgetumat í stað örorkumats og starfsendurhæfingarúrræði verði efld til að fyrirbyggja ótímabæra skerðingu starfsorku. Lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja verða endurskoðaðar og áhersla lögð á einfaldari og skýrari löggjöf. Þá verður lögð áhersla á sveigjanleg starfslok og samræmingu viðmiða í almannatryggingakerfinu og almenna lífeyrissjóðakerfinu.

Ég hef óskað eftir tilnefningum frá öllum stjórnmálaflokkum í níu manna nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem skal vinna á þessu kjörtímabili. Ég bind miklar vonir við þá vinnu en hún byggist á samkomulagi þingflokka frá því í sumar. Ekki hafa enn borist tilnefningar frá öllum stjórnmálaflokkum en ég vona að þær berist sem fyrst þannig að unnt verði að hefja þetta mikilvæga starf. Vinna við endurskoðun stjórnarskrár hlýtur að teljast eitt af mikilvægustu verkefnum löggjafans. Ég treysti því að alþingismenn úr öllum flokkum taki það verkefni alvarlega og vinni af heilindum að því að ná samstöðu um ágreiningsmál sem upp kunna að koma á þeirri leið.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í upphafi er ekki unnt að veita tæmandi skýrslu um störf ríkisstjórnarinnar á þeim 15 mínútum sem gert er ráð fyrir í umræðu sem þessari. Hér hefur því aðeins verið stiklað á stóru varðandi nokkur þeirra verkefna sem unnið hefur verið að í ráðuneytunum síðan ríkisstjórnin tók við í lok maímánaðar.

Nú fyrir upphaf fyrsta reglulega þings nýs kjörtímabils er staðan sem sagt þessi: Í undirbúningi eru róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila. Rekstrarumhverfi fyrirtækja mun taka stakkaskiptum með breyttu og skilvirkara regluverki og jákvæðum hvötum sem ýta undir fjölgun starfa, auka verðmætasköpun og bæta kjör. Skattkerfið allt er til endurskoðunar til að tryggja hámarksávinning samfélagsins.

Um leið og ríkisstjórnin undirbýr sókn íslenskra útflutningsgreina á nýja markaði er unnið að því að nýta þau stórkostlegu tækifæri sem eru að skapast vegna þróunarinnar á norðurslóðum. Verið er að laga heilbrigðis- og almannatryggingakerfin að þörfum landsmanna með það að markmiði að bæta þjónustu við almenning og aðstöðu starfsfólks. Hafin er endurskipulagning menntakerfisins til að tryggja íslenskum ungmennum menntun í hæsta gæðaflokki og samfélaginu þá þekkingu sem þarf til að sækja fram á 21. öldinni.

Þetta eru aðeins fáein dæmi um þá undirbúningsvinnu sem hefur verið í gangi í sumar.

Ríkisstjórnin mun við upphaf nýs þings leggja fram fjölmörg frumvörp til að ná þeim markmiðum sem hún hefur sett sér. Mörg þessara frumvarpa verða umdeild, sum vegna þess að með þeim er horfið frá stefnu síðustu ríkisstjórnar, sum vegna þess að einhverjir munu telja sig þurfa að leggjast gegn sem flestu af því sem frá ríkisstjórninni kemur. Vonandi mun þó umræðan bera svip uppbyggilegrar rökræðu og vonandi getum við í sameiningu gert næsta þing að miklu framfaraþingi.