142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við upphaf og lok vinnudags er umferðarteppa á stoðbrautunum frá nágrannasveitarfélögum og úthverfum Reykjavíkur frá austri til vesturs vegna þess að stórir vinnustaðir eru vestar í borginni en íbúabyggðin meiri í austurhlutanum og nágrannasveitarfélögunum. Fram til ársins 2030 er áætlað að íbúum höfuðstaðarins fjölgi um 25 þús. manns og það þurfi 14.500 íbúðir til að hýsa þetta fólk. Það kostar bæði peninga og tíma að ferðast langt í vinnu. Það þarf að þétta byggðina, það er beinlínis kjaraatriði fyrir fólkið hér í kring.

Á kjörbyggingarlandi höfuðborgarinnar er flugvöllur sem með vissu árabili verður uppspretta heiftúðlegra deilna sem reynt er að snúa upp í deilur á milli landsbyggðar og höfuðborgar, jafnvel svo að taka eigi skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg. Það er ekki hættulaust að hafa flugvöll í miðri borg og óhjákvæmilega takmarkar staðsetningin vaxtarmöguleika starfseminnar. Ef umferð um flugvöllinn eykst mun slysahættan aukast og ég furða mig á því að sá þáttur skuli ekki vera meiri í umræðunni. Hægt er að hafa jákvæð áhrif á dreifingu ferðamanna um landið með því að gera þeim kleift að skipta um vél á alþjóðaflugvellinum í Keflavík og ég trúi því að margir íbúar landsbyggðarinnar mundu fagna því að þurfa ekki að hafa viðkomu í höfuðborginni á leið til útlanda.

Hér hefur ýmislegt verið sagt og ég tek sérstaklega undir það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði, að hér er hægt að ná sátt. Hvað varðar öryggi sjúklinga hef ég meiri áhyggjur af því rannsóknarleysi (Forseti hringir.) sem er á hugsanlegum læknamistökum (Forseti hringir.) á spítalanum en á staðsetningu flugvallarins og tel að hægt sé að ná sátt (Forseti hringir.) eða viðunandi niðurstöðu um staðsetningu sjúkraflugs (Forseti hringir.) í nágrenni Reykjavíkur.