142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi ágreiningur um staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs á landinu hefur verið allt of lengi. Það er löngu tímabært að höggvið verði á þann hnút og reyndar alveg nauðsynlegt allra hluta vegna, ekki síst auðvitað vegna flugstarfsemi en ekki síður vegna þeirra hagsmuna sem Reykjavíkurborg hefur af því hvernig hún skipuleggur framtíð sína varðandi byggingarland.

Það er gott að horfa bara á staðreyndir máls og gera sér grein fyrir því að við erum ekki að fara að byggja nýjan flugvöll á næstu árum eða áratugum. Til þess höfum við ekkert svigrúm. Við erum ekki að fara að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur á næstu árum eða áratugum. Það er ósköp einfalt. Ef við flytjum flugið til Keflavíkur erum við að skerða þjónustuna, um það getur aldrei orðið sátt. Út frá þeim staðreyndum verðum við að vinna, virðulegi forseti. Við verðum að einfalda þetta fyrir okkur og vinna út frá þessu. Borgarfulltrúar jafnt og aðrir verða bara að vinna út frá þeim staðreyndum. Þá leiðir það okkur að því að við þurfum að ná einhverju samkomulagi um að flugvöllurinn verði á næstu árum eða áratugum í Reykjavík og í Vatnsmýrinni. Hann verður ekki annars staðar. Það verður að reyna að laga byggðina að því. Það er mikilvægt að gera í skipulagsmálum innan núverandi svæðis frá Reykjavíkurflugvelli og Reykjavíkurborg hefur vissulega mörg önnur tækifæri til að þétta byggð. Þetta verða menn bara að fara að sætta sig við og horfa á.

Það leysir ekki stöðuna að framlengja þetta um örfá ár. Það leysir ekki stöðuna að fara örfá ár fram í tímann vegna þess að það verður að hefja þá uppbyggingu sem nauðsynleg er á Reykjavíkurflugvelli til að miðstöðin standi undir því að vera miðstöð innanlandsflugs, geti þjónað farþegum og starfsfólki (Forseti hringir.) sómasamlega. Það er góð reynsla margra annarra þjóða af því að hafa flugvöll í borgum. Við getum nefnt Stokkhólm (Forseti hringir.) þar sem teknar voru ákvarðanir um að framlengja leyfi fyrir flugvellinum um 30 ár. Það eru slíkar leiðir sem við þurfum að horfa til, virðulegi forseti.