142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

ávarpsorð í þingsal.

[16:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég stíg í pontu til þess að lesa aðeins upp úr bókinni Háttvirtur þingmaður þar sem segir um ávarpsorð og upplestur, með leyfi forseta:

„Það er föst þingvenja að alþingismenn eru ávarpaðir á þingfundum „háttvirtur þingmaður“ … og hafa forsetar jafnan gert athugasemdir ef út af er brugðið“ eins og athugasemdin sem var gerð við mig rétt áðan.

Við þetta vil ég gera athugasemd. Ég vil að við sýnum hvert öðru virðingu sem þingmenn og ráðherrar og ég mun ávarpa alla þingmenn eins og ég ávarpa forseta Alþingis sem er herra, frú eða jafnvel fröken. Tökum okkur ekki sjálfkrafa virðingartitil sem þjóðinni finnst ekki að við eigum skilið.