142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Úthafsrækjuveiðar voru gefnar frjálsar árið 2010 en þá höfðu ekki verið nýttar þær heimildir sem handhafar rækjukvótans höfðu og aðrar útgerðir hafa verið að byggja upp veiðireynslu líkt og rækjuvinnslan Kampi á Ísafirði.

Nú er í smíðum nýtt frumvarp um rækjukvóta sem gerir ráð fyrir að 70% aflahlutdeildar miðist við eldri aflahlutdeildir og 30% taki mið af veiðireynslu síðustu þriggja ára. Þessi ráðstöfun mun koma mjög illa við þær útgerðir sem hafa verið að byggja upp veiðireynslu síðastliðin þrjú ár, eins og rækjuvinnslan Kampi á Ísafirði en þar blasir við að fyrirtækið muni jafnvel þurfa að loka og 100 störf tapast úr bæjarfélaginu.

Þess má geta að áður en rækjuveiðar voru gefnar frjálsar höfðu einungis um 8% af handhöfum rækjukvótans nýtt sinn kvóta, leigt hann eða ekki talið hagkvæmt að veiða hann. Ég tel því að nauðsynlegt sé að stokka upp þetta kerfi að nýju og hugsa það upp á nýtt því að varla er það vilji stjórnvalda að 100 störf tapist þar sem menn hafa verið að byggja upp öflugt rækjuvinnslufyrirtæki, í þessu tilfelli á Ísafirði, og getur það átt við um fleiri staði sem hafa verið að nýta sér þessar frjálsu veiðar síðastliðin þrjú ár þar sem aðrir sem höfðu heimildirnar höfðu ekki hug á að nýta sér aflaheimildir sínar.

Ég vil vekja athygli á því að bæjarráð Ísafjarðar hefur mótmælt þessu harðlega og miklar áhyggjur eru í því bæjarfélagi um framtíð þessa fyrirtækis. Ég skora á hæstv. ráðherra að skoða þessi mál vel og (Forseti hringir.) kalla til samráðs stjórnarandstöðuna (Forseti hringir.) í þessu máli sem öðrum (Forseti hringir.) er varða sjávarútvegsmálin.