142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Nú höfum við rætt þetta frumvarp á Alþingi og nær einvörðungu hin svokallaða stjórnarandstaða, sem ætti auðvitað síst af öllu að vera stjórnarandstaða í þessu máli. Mér þykir stundum svolítið leiðinlegt þegar ég hef einhverja skoðun og tjái þá skoðun þegar viðmælandinn fer einfaldlega og útskýrir ekki fyrir mér hvers vegna ég hafi rangt fyrir mér.

Hér hefur enginn stigið upp í pontu og útskýrt fyrir okkur hv. þingmönnum sem erum á móti frumvarpinu hvers vegna, af góðum og gildum ástæðum, við höfum rangt fyrir okkur. Það ætti að vera hægt. Það ætti kannski ekki endilega að vera mjög auðvelt en það ætti að vera mögulegt. Það er ekki eins og stjórnina vanti þingmenn, 38 stykki ættu að duga.

Talandi um krísur, þá verða alltaf einhverjar krísur sem réttlæta einhvers konar brot á friðhelgi einkalífsins, takmarkanir á tjáningarfrelsi o.s.frv. Það er krísa á leigumarkaðinum. Ekki ætlum við að halda áfram að hafa auðlegðarskatt til að laga það ástand. Það er algjör krísa í heilbrigðismálum. Ætlum við að brjóta mannréttindi til að laga það? Ég heyri engar slíkar hugmyndir. Það er krísa í löggæslumálum. Lögreglumenn fá skammarlega lág laun, vinnuálagið er fáránlegt og virðing fyrir þeim á meðal almennings því miður allt of lítil. Það er efni í lengri umræðu hvers vegna nákvæmlega það er, en allt byggist það á því að löggæslumál eru í molum eins og næstum því allt á Íslandi í dag sökum annarrar krísu sem við eigum við að stríða sem eru fjármál ríkisins.

Við tölum alltaf um þessa köku sem á að skipta og ég velti fyrir mér hvort hún verði hérna eftir einn eða tvo eða þrjá áratugi. Þá spyr ég: Hvaða mannréttindi ætlum við að skerða þá ef við ætlum að leyfa okkur að skerða þessi núna? Og aftur ítreka ég: Hvað með fíkniefnavandann? Fíkniefnavandinn er mjög alvarlegt vandamál og þótt við píratar séum með sérstaka stefnu í því máli sem miðar ekki að hinu hefðbundna dópstríði verða menn að spyrja: Má ganga svona langt til að bjarga fólki frá gjaldþroti? Athugið að hér á ekki að bjarga fólki frá einhverjum hræðilegum sjúkdómum, ekki frá dauða, ekki einu sinni frelsismissi heldur frá eignamissi, fasteignamissi, þegar fólk fer á hausinn. Svo er það búið eftir tvö eða fimm eða sjö ár eða hvernig svo sem löggjöfin er á hverjum tíma.

Eru það mannréttindi að fara ekki á hausinn? Fyrirgefið, en einhver þarf að spyrja. Eru það mannréttindi að fara aldrei á hausinn? Eru það mannréttindi að hafa aðgang að skynsamlegum lánum? Er það virkilega? Það er svolítið það sem hér er verið að segja, óhjákvæmilega. Hvað með friðhelgi einkalífsins? Svarið við því er já. Friðhelgi einkalífsins eru mannréttindi. Það eru réttindi sem við fáum fyrir það eitt að vera til. Við þurfum ekki að vinna okkur inn þann rétt, okkur er ekki leyft að hafa hann, yfirvöld geta ekki tekið hann burt, þau geta bara brotið á honum.

En ég velti fyrir mér hvað gerist þegar það verður annað hrun. Það kemur annað hrun vegna þess að við höfum ekki lagað það sem olli hruninu, en það er önnur umræða. Það mun verða annað hrun. Þá velti ég fyrir mér hvernig fólk sjái þetta fyrir sér þegar það lítur til fortíðarinnar: Hversu langt þurftum við að ganga seinast í stað þess að vera aðeins vakandi, geta tekið mark á viðvörunarorðum til tilbreytingar og kannski tekið þátt í umræðunni. Hér hefur ekki átt sér stað umræða milli þeirra sem styðja frumvarpið og þeirra sem eru á móti því. Það hefði verið hægt frá upphafi. Fólk getur alveg sakað okkur um málþóf ef það vill, en þetta var ekkert málþóf. Það komu fram skýrir punktar. Það hafa komið fram nýir punktar í hverri ræðu sem sá sem hér stendur hefur flutt. Í hvert einasta sinn býð ég upp á andsvar, þetta ferli býður upp á andsvar. Einn eða tveir eða þrír eða allir 38 meðlimir stjórnarmeirihlutans ríkisstjórnarinnar hefðu getað setið hér, hlustað, velt þessu fyrir sér og sagt: Ég er ósammála, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Þeir hefðu getað komið hingað og útskýrt fyrir mér hvers vegna. Ég hefði verið mjög þakklátur fyrir það og ég er mjög þakklátur þeim sem þó hafa komið upp í pontu hvort sem var í andsvari eða til að fara með aðalatriðin.

Nú fer frumvarpið aftur fyrir nefnd, hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ætli við verðum ekki að gera það litla sem við virðumst geta gert til þess að bæta þetta mál eitthvað, vonandi með því að finna leið til að tryggja samþykki þeirra sem við hyggjumst núna brjóta á.