142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum til atkvæða eftir 2. umr. um hagstofumálið stóra en í þessu máli vegast á miklir og stórir hagsmunir. Á síðasta kjörtímabili höfum við öll fundið fyrir því, sama úr hvaða flokki við komum og sama hvort við höfum verið á þingi eða ekki, að það hefur skort á upplýsingar til þess að geta kortlagt greiðsluvanda heimilanna og það hefur gert stjórnvöldum erfitt að taka ákvarðanir um lausnir sem skila árangri. Þess vegna var farið af stað með þetta mál í tíð eldri ríkisstjórnar sem setti í þetta fjármagn og gerði ráð fyrir því að ekki þyrfti lagabreytingu til.

Það kom hins vegar á daginn að það þurfti og hér þurfum við, þingmenn þjóðarinnar, að vega og meta hagsmuni einstaklinga og fyrirtækja af því að trúnaður ríki um fjárhagsupplýsingar þeirra á móti hagsmunum okkar og (Forseti hringir.) þjóðarinnar allrar af því að geta tekið ákvarðanir um lausnir til handa heimilum og fyrirtækjum á traustum grundvelli.