142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við göngum til atkvæða eftir 2. umr. um mál sem hér hefur verið til umræðu í dag. Ég vil segja það við lok umræðunnar að hér er farið á svig við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Hér er verið að ógna persónuverndarsjónarmiðum og mannréttindaákvæðum til að safna gríðarlegu magni af gögnum án þess að fyrir liggi nægilega skýrt til hvers á að nýta þau. Það er verið að veita heimildir fyrir verkefni sem er ekki nægilega skilgreint. Hagsmunamatið, þ.e. hvort almannahagsmunirnir eru nægilega ríkir til þess að gengið sé svo langt, er í okkar höndum og þar þurfum við að vanda okkur.

Ég vænti þess auðvitað að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki málið til gaumgæfilegrar skoðunar og að þar verði samviska þingmanna líka undir.