142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stóra undrið sem ekki hefur verið upplýst í umræðu um þetta mál er í hvað á að nota allar upplýsingarnar. Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því yfir að niðurstöðu sé að vænta í nóvembermánuði en gögnin sem þetta mál tekur til eiga ekki að verða tilbúin fyrr en í mars eða apríl. Forsætisráðherra hefur nú bætt um betur í að kynna hið mikla veraldarsögulega undur sem skuldaleiðréttingar hans eiga að verða og hann hefur sagst vita hvað þær kosti upp á hár. Þær eru undir 300 milljörðum og þá spyr maður: Fyrst vitað er hver kostnaðurinn er, er þá ekki líka vitað hverjir eiga réttinn?

Allt þetta sullumbull er með þeim hætti að stjórnarmeirihlutinn verður að bera ábyrgð á þessu máli sjálfur. Við munum ekki standa í vegi fyrir því, en þær viðvaranir sem settar hafa verið fram um stjórnskipulega þætti þessa máls eru þannig að ég ráðlegg stjórnarmeirihlutanum að hugsa mjög sinn gang.