142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

umfjöllun nefnda um skýrslu um Íbúðalánasjóð.

[15:11]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Eins og forseti nefndi í upphafi þessarar umræðu þá hafa verið sett tiltekin lög um málsmeðferðina. Í fyrsta lagi eru það lög um rannsóknarnefndirnar og með hvaða hætti þær eiga að skila af sér sínum verkum.

Þar er það ákaflega skýrt að gert er ráð fyrir því að þetta gangi til þeirrar nefndar sem fer með stjórnskipunar- og eftirlitshlutverk hér á Alþingi. Eins og við vitum, hv. þingmenn, þá er það stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þessu tilviki. Sömuleiðis er kveðið mjög skýrt á um þetta í lögunum um þingsköp Alþingis þannig að hér er eingöngu verið að fara eftir því sem kveðið er á um í lögum. Það er ekki verið að ýta einum eða neinum til hliðar, allra síst einhverjum tilteknum þingnefndum.

Það sem forseti greindi hins vegar frá hér áðan var að forsætisnefnd hefði að minnsta kosti tvívegis rætt þessi mál og komist að þeirri niðurstöðu fyrir allnokkru að það væri mjög nauðsynlegt að fara yfir reynsluna af þessari lagasetningu og reynsluna af framkvæmdinni. Það er ýmislegt í þeim efnum sem við þurfum að hafa þar til hliðsjónar.

Forseti telur það mjög mikilvægt fyrir okkur að við komumst síðan að niðurstöðu um þessi mál. Það er örugglega mjög margt sem hægt er að læra af þeirri reynslu sem við höfum þegar fengið af meðferð þessara skýrslna. Það kann vel að vera að það muni til dæmis leiða til þess að nauðsynlegt verði að breyta lögum, bæði varðandi þingsköpin og enn fremur varðandi lögin um rannsóknarnefndirnar sjálfar. Til þess verður þó Alþingi auðvitað að taka afstöðu þegar að því kemur.

Kjarni málsins í þeirri stöðu sem við erum í núna er sá að rannsóknarnefndin sem skipuð var um Íbúðalánasjóð er einfaldlega ekki lengur að störfum. Lög kveða á um það að hún ljúki hlutverki sínu um leið og hún afhendir þessa skýrslu. Alþingi hefur ákveðið að það sé gert með þeim hætti að þetta mál verði síðan kynnt í viðeigandi þingnefnd. Vel má vera að það sé skynsamlegt í upphafi að fleiri nefndir eftir atvikum fái aðkomu að slíkri kynningu. Til þess verður Alþingi sjálft að taka afstöðu.