142. löggjafarþing — 28. fundur,  16. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem fram hefur farið um þetta mál hér í þingsal og held að það sé gagnlegt að hafa hana hér þó að ég ætli ekki að lengja hana mikið fyrir mitt leyti. Mér gafst bara ekki kostur á því að taka þátt í 2. umr. þannig að ég vil gera grein fyrir sjónarmiðum mínum í málinu áður en umræðu um það lýkur enda hafði ég nokkur afskipti af svipuðum málum á síðasta kjörtímabili sem komu þá inn frá þáverandi ríkisstjórn og náðu ekki fram að ganga í þinginu. Ástæðan fyrir því að þau náðu ekki fram að ganga var ekki sú að hjá okkur væri ekki fullur skilningur á því að menn vildu hafa sem bestar upplýsingar og að aðgerðir í skuldamálum væru mikilvægar, heldur hitt að veruleg vandkvæði voru á því að binda slíka upplýsingasöfnun í lög þannig að það stæðist ákvæði mannréttindasáttmála, stjórnarskrár og persónuverndarsjónarmið. Engu að síður lýstum við því yfir þegar að loknum kosningum að við í Samfylkingunni mundum fyrir okkar leyti greiða leið þeim málum sem lytu að aðgerðum í málefnum skuldugra heimila og munum auðvitað ekki standa í vegi fyrir því að þetta mál fái afgreiðslu.

Hitt hefur komið mjög á óvart í meðferð málsins að það snýr ekki að því að leggja grunn að aðgerðum í skuldamálum heimilanna. Það breytir í raun og veru allri myndinni, ásýnd málsins og röksemdunum fyrir því og kollvarpar að mestu leyti því að hægt sé að réttlæta það að svo langt sé farið eins og hér er lagt til.

Hér er verið að leggja til að safnað sé á einn stað mjög miklum upplýsingum um fjármál og viðkvæma þætti fjármála hjá öllum Íslendingum. Því eru samfara augljósar hættur. Augljóst er að þar geta aðilar sem aldrei var ætlunin að kæmust í slíkar upplýsingar komist í þær. Slíkar upplýsingar geta þess vegna orðið öllum aðgengilegar eins og iðulega hefur orðið um trúnaðarupplýsingar á netinu, eins og við þekkjum úr fréttum þegar jafnvel fyrirtæki með gríðarlega öfluga öryggisstarfsemi hafa misst trúnaðarupplýsingar til dæmis um greiðslukort manna eða leyninúmer. Eða þær upplýsingar sem nú liggja frammi á öllum helstu dagblöðum í Evrópu um leynireikninga öflugustu fjármálastofnana í heimi á aflandseyjum, um innstæður manna þar sem varið hafa gríðarlegu fé og mikilli sérfræðiþekkingu í að tryggja að þær upplýsingar væru öruggar og skattyfirvöld hvergi kæmust í þær, hvað þá blaðamenn. En þær eru núna einfaldlega öllum aðgengilegar vegna þess að við lifum þannig tíma að tæknin er í stöðugri þróun. Það sem við höldum einn daginn að hægt sé að dulkóða uppgötvum við í vikunni á eftir að einhverjar tilteknar stofnanir hafa þróað tækni í að komast fram hjá, afrita og þess vegna dreifa.

Þegar ráðast á í svona gríðarlega umfangsmikla upplýsingasöfnun um einstaklinga og einkalíf þeirra, um viðkvæma þætti fyrir hverjum og einum eins og það hvort hann er í vanskilum eða með hvaða hætti greiðsluskilmálar hans eru í bankanum eða kjör hans á einhverjum hlutum, þá þurfum við að hafa fyrir því býsna sterkar röksemdir. Þegar málið kom fyrst fram töldum við að það væri grundvöllur þess að þetta væru nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið ákvarðanir í skuldamálum heimilanna þá. Þetta varðaði gríðarlega mikil ríkisútgjöld og gríðarlega stóra efnahagslega aðgerð af því að menn ætluðu að nota þessar upplýsingar til þess að taka þær miklu ákvarðanir.

Núna, nokkrum mánuðum síðar er hins vegar komið fram af hálfu hæstv. forsætisráðherra og hér í ræðustól Alþingis að það á ekki að nota þær upplýsingar til að taka ákvarðanir í skuldamálum. Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að þær ákvarðanir hafi þegar verið teknar, þær liggi fyrir í stjórnarsáttmálanum og að þeir starfshópar sem nú starfa, þeirra verkefni sé ekki að komast að neinum niðurstöðum í þeim efnum heldur eigi þeir bara að útfæra það sem þegar hefur verið ákveðið. Hæstv. forsætisráðherra hefur líka upplýst í ræðustólnum að það liggi fyrir hver kostnaðurinn við þessar aðgerðir verði og að hann verði miklu minni en 300 milljarðar. Það hefur hann orðrétt sagt úr þessum ræðustóli. Þess vegna liggur fyrir hvaða aðgerða á að grípa til, hversu mikið umfang þeirra verður og þeir ólíku útfærslumöguleikar í þeim efnum, ákvarðanir um þá verða teknar án þess að upplýsingarnar liggi fyrir og væntanlega koma fram tillögur ríkisstjórnarinnar án þess að þær upplýsingar liggi fyrir.

Þetta mál varðar því ekkert þessar stóru ákvarðanir. Því spyr maður hvers vegna ætti þá að heimila það að ganga svona nærri friðhelgi einkalífsins úr því að slá á nýtt heimsmet í skuldaleiðréttingum alveg óháð þeim upplýsingum. Ríkisstjórnin er búin að ákveða það og útfærslurnar verða kynntar í nóvember meðan þessar upplýsingar verða í fyrsta lagi til í mars næstkomandi. Það virðist blasa við, það kann að vera að upphaflega hafi menn hugsað sér að nota upplýsingarnar við ákvarðanir í skuldamálum en það er einfaldlega ekki lengur á dagskrá. Og þá sýnist mér, án þess að hafa kannski yfirvegað málið alveg til fulls, að röksemdirnar og réttlætingin fyrir því að fara í svona mikla upplýsingaöflun um einstaklinga á einum stað og skapa hættu meðal annars á árásum á viðkomandi tölvukerfi og þá hættu sem fylgir því að óprúttnir aðilar misnoti slíka upplýsingaöflun, að engar röksemdir séu fyrir því að fara í hana vegna þess að slíkar upplýsingar eigi þá bara fyrst og fremst að nýta til þess að leggja mat á aðgerðir eftir á.

Það er engin þörf á því að safna umræddum upplýsingum saman á einn stað til þess að leggja mat á aðgerðir eftir á. Það hafa engin rök verið færð fram fyrir því. Við höfum á einum stað upplýsingar um vanskil. Það verður eftir sem áður hægt að kanna stöðu vanskila eftir aðgerðir eins og áður og hvaða áhrif þetta hefur haft þar á. Einnig verður safnað upplýsingum um eignir og skuldir heimilanna á vegum ríkisskattstjóra og þær munu alveg duga til þess að sjá áhrif aðgerðanna sem fyrirhugaðar eru, heimsmetsins, á stöðu eigna og skulda fólks. Í Reiknistofu bankanna er allar upplýsingar um greiðsluskilmála fólks væntanlega að finna og ef menn vilja skoða einhverjar breytingar á því þá er ekkert því til fyrirstöðu að leita þangað eftir upplýsingum til að fá vitneskju um hvort einhverjar breytingar hafi orðið á greiðslukjörum fólks eftir að í þessar aðgerðir hafi verið farið. Þó að ég sjái ekki hvaða tilgangur ætti að vera svo sem í því.

Það verður ekki séð að það að setja allar þessar upplýsingar á einn stað feli í sér neina verulega þýðingarmikla og knýjandi almannahagsmuni í gagnasöfnun eftir á. Nú kann vel að vera að safna eigi þessum gögnum oftar, á þriggja mánaða fresti í staðinn fyrir tólf eða eitthvað slíkt. Það væri væntanlega ekki eðlisbreyting á þeirri upplýsingasöfnun sem þegar fer fram. En ég held að ótvírætt sé að með hóflegri hætti sé hægt að afla þessara upplýsinga um aðgerðirnar eftir á, fyrst ekki á að nota þær til að taka ákvarðanirnar um aðgerðir. Og jafnvel þó að ætlunin væri að taka ákvarðanir um aðgerðir á grundvelli tiltekinna upplýsinga þá verðum við að spyrja okkur þegar um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar: Er hægt að ganga skemur en hér er verið að leggja til? Svarið virðist vera alveg augljóst: Já, það er hægt að gera með úrtakskönnunum eins og frændur okkar Norðmenn gera. Þá svara menn: Ja, það verður býsna stórt úrtak, þriðjungur landsmanna. Gott og vel, en það er þá samt bara þriðjungur landsmanna sem þessum upplýsingum er safnað um og hinir 2/3 hlutar þjóðarinnar eru þá lausir undan því að upplýsinga sé aflað um þá með þessum hætti og þeir settir í þá hættu sem svona upplýsingasöfnun klárlega skapar í þeim nútíma sem við lifum.

Það virðist líka vera, ef það er bara ætlunin að leggja mat á aðgerðirnar og áhrif þeirra, eðlilegt að spyrja: Er ekki líka hægt að takmarka þessa upplýsingasöfnun við þá sem aðgerðirnar ná til? Þannig að þegar menn leita eftir því að fá þá fyrirgreiðslu sem ríkisstjórnin hyggst leggja til, njóta síns hlutar í þessu heimsmeti, þá gefi þeir um leið heimild fyrir því að heimsmetið sé skráð, aðkoma þeirra að því, og upplýsingar um þá og að það væri þá fullnægjandi til þess að meta áhrif aðgerðanna. En af hverju í ósköpunum ætti einhver íbúi segjum til dæmis á Vopnafirði sem skuldar ekkert í húsinu sínu og hefur engan áhuga á því að fá svona aðgerðir fyrir sig og hefur ekki kosið Framsóknarflokkinn — af hverju ættu þessar upplýsingar að ná til allra? Maður hlýtur auðvitað að spyrja sig um það. Hvers vegna er ekki hægt að binda þær við þá sem njóta þá þeirra aðgerða sem fyrirhugaðar eru? Og ef það þykir ekki nægilega góð upplýsingagjöf, er þá að minnsta kosti ekki hægt að gefa borgurum landsins færi á því að afþakka það að um þá sé safnað svona upplýsingum? Það var gert í greiðslujöfnuninni sem var úrræði sem talið var brýnt almannahagsmunamál að koma á en fólk gat sagt sig frá. Er það ekki eðlileg ráðstöfun og heimild fyrir fólk til þess að velja sig undan?

Mér virðist að þessu samanlögðu að það séu augljóslega engir ríkir almannahagsmunir — enda getur tölfræðiupplýsingasöfnun eftir á ekki talist ríkir almannahagsmunir þegar hún fer hvort eð er fram vegna þess að það er auðvitað þannig að fram fer söfnun tölfræðiupplýsinga eftir á í þessum efnum — sem kalli á þetta og að líkur séu til þess. Ég vil ekki fullyrða það vegna þess að ég sat aðeins einn fund þeirrar ágætu nefndar sem fjallaði um málið, en mér virðist að nokkrar líkur séu til þess að að minnsta kosti sé hægt að ganga skemur í því að ganga á friðhelgi einkalífsins og skapa einstaklingum hættu á því að viðkvæmar upplýsingar um þá verði opinberar eða verði misnotaðar. Og að sú skylda hvíli á þinginu að fara þá hina skemmri leiðina vegna þess að hitt sé einfaldlega of íþyngjandi ákvarðanir.

Ég harma það að meiri hlutinn í þinginu skuli ekki hafa þegið það ágæta boð um samstarf sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni settu fram um að vinna að því að koma þessu máli í þann búning að það standist örugglega stjórnarskrá og sé í samræmi við þau sjónarmið sem Persónuvernd hefur sett fram vegna þess að það verður jú enn til þess að flækja málið ef þessi löggjöf verður síðan að deiluefni og ratar fyrir dómstóla. Ef einhver fjármálastofnun neitar að afhenda upplýsingarnar á grundvelli persónuverndarsjónarmiða og með vísun til ályktana stjórnar Persónuverndar þá geri ég ráð fyrir að á slíka neitun þurfi að reyna fyrir dómstólum áður en hægt er að safna upplýsingum. Slíkt ferli getur tekið talsvert langan tíma, að reka mál af því tagi, bæði fyrir héraði og Hæstarétti, til að fá um það niðurstöðu að það megi yfir höfuð safna slíkum upplýsingum á einn stað. Þá værum við ekki að sjá fyrstu upplýsingarnar í mars næstkomandi, árið 2014, heldur þá kannski meira í mars 2015 og þá spyr maður: Til hvers er verið að leggja upp í leiðangurinn ef ekki er reynt að gæta þess að bæði sé um hann víðtæk pólitísk samstaða og að hann gangi ekki lengra en góðu hófi gegnir gagnvart friðhelgi einkalífsins þegar svo takmarkaðir almannahagsmunir eru að baki eins og söfnun upplýsinga eftir á þegar um þegar ákveðnar aðgerðir er að ræða?